Björn Traustason stendur með mælitækin við hæsta tré landsins, sitkagrenið sjötuga á Kirkjubæjarklau…
Björn Traustason stendur með mælitækin við hæsta tré landsins, sitkagrenið sjötuga á Kirkjubæjarklaustri sem nú mælist 28,7 metrar á hæð. Ljósmynd: Ólafur St. Arnarsson

Hæsta tré landsins er 70 ára á þessu ári og á nú aðeins eftir að vaxa rúman metra til að ná 30 metra hæð. Tré hafa ekki náð þessari hæð á Íslandi frá því að stórvaxnar trjátegundir þrifust á landinu fyrir milljónum ára. Tréð stendur á Kirkjubæjarklaustri og mældist 28,7 metrar á hæð nú fyrr í vikunni. Undanfarin ár hefur þetta tré hækkað um allt að hálfan metra á hverju ári og ef það vex áfram áfallalaust næstu árin ætti það að ná þrjátíu metra hæð innan fárra ára.

Ólafur St. Arnarsson heldur á mælistönginni við hæsta tréð. Hæðin fæst með endurteknum þríhyrningamælingum með sérstökum mælisjónauka og niðurstaðan af mælingunni nú er meðaltal tíu slíkra mælinga. Ljósmynd: Björn TraustasonÞeir Björn Traustason og Ólafur St. Arnarsson, sérfræðingar á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar, hafa unnið að skógmælingum á Suðausturlandi undanfarna daga og komu þá við í þjóðskóginum á Kirkjubæjarklaustri til að slá máli á hæsta tré landsins sem vitað er um, sitkagreni sem gróðursett var 1949. Skógmælingaflokkar Skógræktarinnar hafa lagt sig eftir að mæla þetta tré árlega um þetta leyti árs enda magnast spennan eftir því sem hæð trésins nálgast 30 metra.

Gerðar voru tíu mælingar á trénu þriðjudaginn 3. september og meðaltal þeirra gaf að sögn Björns 28,65 metra hæð. Þvermál trésins mældist hins vegar 47,6 sentímetrar í brjósthæð.

Hæsta villta birkitré landsins sem vitað er um stendur í Vaglaskógi og hefur mælst rúmir 14 metrar á hæð. Íslenskt birkitré stendur í Minjasafnsgarðinum á Akureyri og hefur verið mælt eilitlu hærra en það. Ekki er ástæða til að ætla að birkitré í íslenskum skógum hafi verið hærri en þetta áður en land byggðist og því þarf að leita langt aftur fyrir síðustu ísöld til að finna tímabil í jarðsögu Íslands þegar hér uxu hávaxnari trjátegundir, líklega milljónir ára.

Björn Traustason og Ólafur St. Arnarsson að loknum mælingum í skóginum á Klaustri. Ljósmynd: Björn TraustasonHæsta tré landsins er þó langt í frá það sverasta því víða má finna enn sverari tré þótt þau nái ekki sömu hæð. Þar á meðal eru ekki síst myndarlegar aspir en sverasta tré landsing er gjarnan talið vera annálaður fjallaþinur, rúmlega aldargamall, í Mörkinni á Hallormsstað. Þá er líka vert að nefna að hið umrædda hæsta tré landsins á Klaustri er ekki sverast meðal jafnaldra sinna þar í skóginum. Nágranni þess, líka sitkagreni, sem mælist nokkru sverara. Þar tala trjámælingamenn því um „háa tréð“ og „breiða tréð“. Það breiða mælist nú 66,4 sentímetrar að þvermáli í brjósthæð, tæpum 20 cm sverara en það hæsta.

Þessi tvö umræddu sitkagrenitré á Klaustri hafa hvort um sig bundið mikið kolefni á sjötíu ára ævi sinni og munu gera það áfram. Eins og sagt var frá hér á skogur.is fyrir ári, þegar trén voru mæld síðast, hefur sverara tréð bundið á líftíma sínum meira en þrjú tonn af koltvísýringi og langt er frá að þessi tré séu hætt að vaxa og binda kolefni. Þau vinna því með hljóðlátum hætti mjög þarft verk fyrir framtíð okkar á jörðinni.

Hæð sitkagrenisins á Klaustri vekur að vonum athygli og fjallar Morgunblaðið um það í dag.

Texti: Pétur Halldórsson

Frétt Morgunblaðsins