Hæsta tréð þarf ekki að vera það sama og stærsta tréð. Sitkagrenið sem Bjarki stendur hér við ásamt …
Hæsta tréð þarf ekki að vera það sama og stærsta tréð. Sitkagrenið sem Bjarki stendur hér við ásamt skógfræðinemunum Pedro, Ritu og Josefin er einum metra lægra en hæsta tréð. Á hinn bóginn er það miklu sverara og þar með efnismeira. Þetta stæðilega tré hefur bundið rúm þrjú tonn af koltvísýringi á tæplega 70 ára ævi sinni. Myndina tók Björn Traustason.

Allt útlit er fyrir að fyrsta íslenska tréð nái 30 metra hæð sumarið 2021 ef fram fer sem horfir. Hæsta tré á Íslandi sem vitað er um mælist nú 28,36 metrar á hæð. Áætla má að það hafi nú bundið um 1,7 tonn af koltvísýringi (CO2). Annað tré í grennd við það hæsta er hins vegar mun sverara þótt það sé ekki eins hátt. Það tré hefur bundið rúm þrjú tonn af CO2.

Bjarki Þór Kjartansson og Björn Traustason, sérfræðingar á Mógilsá, hafa verið við skógmælingar á Suðausturlandi undanfarna daga ásamt fríðu föruneyti aðstoðarfólks. Eins og venjan er orðin mældu þeir þau tré sem talin eru hæstu tré landsins og vaxa í skógarlundinum á Kirkjubæjarklaustri. Tvö þeirra voru mæld að þessu sinni. Annars vegar er hæsta tré sem vitað var um árið 2016 og mældist þá 27,18 metra hátt. Hins vegar er tré sem er einum metra lægra en hefur aftur á móti töluvert sverari stofn. Hvort tveggja er sitkagreni gróðursett um 1949. Niðurstöðurnar eru eftirfarandi:

Hæsta tré landsins sem vitað er um er sama tréð og mælst hefur hæst undanfarin ár, sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri sem reyndist í ágúst 2018 vera 28,36 metra hátt. Ljósmynd: Bjarki Þór KjartanssonSitkagreni 1

(hæsta tré sem vitað er um á landinu og var 27,18 m hátt 2016)

Mæling í ágúst 2018: 28,36 metrar á hæð og 46,8 cm að þvermáli í brjósthæð
Bolrúmmál: 1.930 lítrar
Lífmassi ofanjarðar: 779 kg
Lífmassi neðanjarðar: 195 kg
Samanlagður lífmassi: 974 kg
Kolefnisinnihald (um helmingur af límassanum): Um það bil 487 kg
Áætluð binding koltvísýrings (CO2) frá upphafi: um 1,8 tonn

Sitkagreni 2

Mæling í ágúst 2018: 27,36 metrar á hæð og 64,5 cm að þvermáli í brjósthæð
Bolrúmmál: 3.211 lítrar
Lífmassi ofanjarðar: 1.388 kg
Lífmassi neðanjarðar: 347
Samanlagður lífmassi:  1.735 kg
Kolefnisinnihald: Um það bil 868 kg
Áætluð binding CO2 frá upphafi: um 3,2 tonn

Meðfylgjandi myndir voru teknar í sólskininu á Klaustri daginn sem mælingarnar voru gerðar. Ásamt Bjarka og Birni eru skógfræðinemar frá Portúgal og Svíþjóð sem hafa aðstoðað þá við mælingar að undanförnu, þau Pedro og Rita frá Portúgal og Josefin frá Svíþjóð.

Upplýsingar og myndir: Bjarki Þór Kjartansson
Tölur um bindingu: Arnór Snorrason
Texti: Pétur Halldórsson