Skógræktarstjóri (t.v.) færði forsetahjónunum að gjöf boli með áletruninni MINNA KJAFTÆÐI, MEIRI SKÓ…
Skógræktarstjóri (t.v.) færði forsetahjónunum að gjöf boli með áletruninni MINNA KJAFTÆÐI, MEIRI SKÓG. Lengst til hægri stendur Þór Þorfinnsson skógarvörður. Ljósmynd: Bergrún Arna Þorsteinsdóttir

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid gerðu Hallormsstaðaskóg að einum viðkomustaða sinna í opinberri heimsókn sinni á Fljótsdalshérað og Borgarfjörð eystra nú í vikunni. Guðni mátaði sig við höggmynd af sjálfum sér sem skorin var út með keðjusög daginn áður en hann var kjörinn forseti.

Opinbera heimsóknin stóð yfir dagana 11.-13. september. Á síðasta deginum, í gær, heimsóttu forsetahjónin innanvert Hérað og komu við í Hallormsstaðskógi. Þór Þorfinnsson skógarvörður og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri tóku á móti forseta og fylgdarliði við Trjásafnið í Mörkinni ásamt starfsfólki á Skógræktarinnar á Hallormsstað. Genginn var stuttur hringur í safninu, Guðni og Elísa frædd um upphafsár skógræktar á Hallormsstað og annað sem fyrir augu bar á göngunni.

Í lokin var Guðna sýnd brjóstmynd af honum sem norskur listamaður sagaði út með keðjusög daginn fyrir forsetakosningarnar 2016. Aðeins er farið að sjá á brjóstmyndinni því sveppur hefur farið að vaxa í viðnum og setur nú mark sitt á verkið. Í frétt Sjónvarpsins frá heimsókninni heyrðust orð sem komu upp í huga forsetans þegar hann sá mynd sína skorna út í lerkibol.

„Tíminn líður og aldurinn færist yfir og að því kemur einmitt að þetta verða örlög þeirra sem sitja á forsetastóli. Það eru brjóstmyndir af fyrri forsetum á Bessastöðum  þannig að það þarf ekki að leita langt yfir skammt, hér er bara brjóstmyndin komin.“

Og forsetinn var ekki frá því að svipur væri með honum og eftirmyndinni sem við gætum kallað Lerki-Guðna. Í lok heimsóknarinnar voru Guðna og Elísu færðar góðar gjafir, m.a. afurðir úr skóginum frá fyrirtækinu Holti og heiðum. Þar mátti finna birki og grenisíróp, þurrkaða sveppi, birkite og ýmislegt annað góðgæti. Skógræktarstjóri færði þeim hjónum boli með áletruninni „MINNA KJAFTÆÐI, MEIRI SKÓG!“ og bókina „Hallormsstaður í Skógum“ eftir þá Hjörleif Guttormsson og Sigurð Blöndal.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild og myndir: Þór Þorfinnsson