Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í Skrúðgarðinum á Húsavík. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í Skrúðgarðinum á Húsavík. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Auðvitað er enginn áhugi fyrir því að skógrækt skaði fuglastofna eða annað í lífríkinu. Auðvitað ekki! Auðvitað tökum við hjá Skógræktinni tillit til umhverfis- og verndarþátta þegar við skipuleggjum skógrækt. Auðvitað! Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri skrifar grein í Morgunblaðið í dag og svarar rangfærslum sem tveir kunnir náttúrufræðingar settu fram á Líffræðiráðstefnunni 2019 sem haldin var nýverið.

Grein Þrastar birtist nokkuð stytt í Morgunblaðinu en hér fer hún á eftir í fullri lengd.

 

Nýverið var haldin Líffræðiráðstefnan 2019. Þar fjallaði ein málstofan um áhrif aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum á þurrlendisvistkerfi. Var þar m.a. fjallað um áhrif skógræktar, án þess þó að nokkrum úr skógræktargeiranum hefði verið boðin þátttaka. Í framhaldinu birtust svo viðtöl í Morgunblaðinu 20. október við tvo fyrirlesara á málstofunni, þau Ólaf K. Nielsen fuglafræðing og Þóru Ellen Þórhallsdóttur grasafræðing, Þar var eingöngu fjallað um það sem þau höfðu út á skógrækt að setja.

Gagnrýni er af hinu góða. Sé hún á rökum reist gefur hún okkur tilefni til að staldra við og íhuga hvort eitthvað megi betur fara. Það höfum við í skógræktargeiranum líka gert og munum gera áfram. Sé hún hins vegar byggð á hæpnum eða jafnvel fölskum forsendum flokkast hún sem rógur en ekki rýni til gagns.

Flatarmál varplanda fugla

Í viðtalinu greinir Ólafur K. Nielsen frá útreikningum sínum á því að stofnar sumra fugla kunni að minnka vegna skógræktar og talar m.a. um hrun jaðrakanastofnsins (70% minnkun). Hann gefur upp að hann leggi til grundvallar markmið úr ritinu Skógar á Íslandi – stefna á 21. öld, sem finna má á vefsíðu Skógræktarinnar, skogur.is. Þar kemur fram stefna um að í lok aldarinnar geti skógar mögulega vaxið á 12% af landinu og yrði því náð með blöndu af náttúrlegri útbreiðslu birkis og aukinni gróðursetningu með fjölbreyttum markmiðum. Svo gefur Ólafur sér að skógrækt og útbreiðsla birkis fari eingöngu fram á landi neðan 400 m hæðar yfir sjávarmáli og einungis á tilteknum landgerðum, dregur þar t.d. frá bæði hraun og votlendi. Þannig er það sem hann telur vera mögulegt skógræktarland komið niður í tæp 25% af landinu. Helmingur þess eru þá eru þessi 12% sem talað er um til skógræktar. Þá gefur hann sér að bein og einföld tengsl séu á milli flatarmáls varplanda og stærðar fuglastofna. Ekkert af þessu stenst nánari skoðun.

Músarrindill sem fangaður hefur verið í skógi til merkingar. Þessi tegund nýtur góðs af útbreiðslu skóga, bæði birkiskóga og nytjaskóga. Ljósmynd: Pétur HalldórssonEngin lína liggur í 400 m hæð sem skilur á milli feigs og ófeigs, hvorki fyrir skóga né varpútbreiðslu fugla. Skógrækt með gróðursetningu fer mest fram í byggð og þar með á láglendi. En náttúrleg útbreiðsla birkis á sér stað þar sem landnotkun leyfir og fræuppsprettur eru fyrir hendi. Birki hefur t.d. víða breiðst út á hraunum. Margir dásama mikla útbreiðslu birkis á Skeiðarársandi á undanförnum 25 árum. Á sama tíma hefur birki í Búrfellshrauni á Mývatnsöræfum verið að vaxa og þéttast á mun víðáttumeira svæði þannig að nú telst það til skóglendis, sem það gerði ekki fyrir 25 árum. Birki breiðist út á allmörgum stöðum í yfir 400 m hæð og það mun aukast eftir því sem hlýnar. Sambærilegt hitafar hækkar í landi um ca. 100 metra fyrir hverja gráðu sem hlýnar. Næstu aldamót gæti hitafar í 600 m hæð orðið svipað því og var í 400 m hæð í byrjun þessarar aldar. Við það stækkar það landsvæði þar sem finna má láglendisskilyrði um minnst 22.000 km2. Það er 50% aukning „láglendis“, sem gæti haft jákvæð áhrif á mögulega útbreiðslu skóga og fugla.

Forsendur sem Ólafur K. Nielsen gefur sér fyrir mögulegt flatarmál lands til útbreiðslu birkiskóga/skógræktar eru óraunhæfar og talan sem hann leggur til grundvallar útreikningum allt of lág. En jafnvel þótt sú tala sé tvöfölduð þá myndi hann væntanlega samt fá það út að jaðrakanastofninn myndi minnka um 35%. Það væri slæmt og alveg nóg til þess að það verðskuldi sérstaka skoðun á landvali til skógræktar, að því gefnu að einfalt og línulegt fall væri á milli flatarmáls varplanda og stofnstærðar fugla. Ekki hefur þó verið sýnt fram á slíkt og það er reyndar mjög ólíklegt að sambandið sé svo einfalt.

Undirliggjandi forsenda þess að línuleg (eða yfirleitt nokkur) tengsl séu á milli flatarmáls kjörlendis og stofnstærðar lífveru er sú að svæðið sé nokkurn veginn fullsetið, að ekki sé pláss fyrir fleiri einstaklinga. Sé það ekki fullsetið, þá er það ekki flatarmál þess sem takmarkar stofnstærð heldur eitthvað annað. Þá gildir hvort tveggja, að stofninn hefur pláss til að stækka og að minnkun svæðisins hefur lítil áhrif á stofnstærð. Margir aðrir þættir en flatarmál mögulegra búsvæða hafa áhrif á stofnstærðir fugla. Nefna má gæði búsvæða eða breytingar á afráni. Breytingar á vetrarbúsvæðum í Suður-Evrópu eða Afríku geta einnig haft áhrif fyrir þá fugla sem hér eru mest til umræðu. Þó við tölum einungis um flatarmál búsvæða á Íslandi, þá eru þau einnig breytingum háð af öðrum ástæðum en skógrækt. Til dæmis er verið að græða upp land og skapa þar með mólendi úr auðnum á umtalsvert stærra flatarmáli en verið er að rækta skóg á. Einnig má benda á aðrar fyrirhugaðar breytingar á landnotkun, þ.á m. áform um stórfellda endurheimt votlendis, hugmyndir um stórfellda ræktun olíurepju og hugmyndir um eflingu sauðfjárræktar vegna útflutnings á lambakjöti til Kína. Nýleg rannsókn sýndi að kindur éta mófuglaegg og unga á beitilandi í Fljótshlíð og eldri rannsóknir hafa sýnt fram á sambærilega hegðun.

Spár um stofnstærðarbreytingar fugla eru flóknari en svo að hægt sé að miða aðeins við einn þátt lífsferilsins, flatarmál mögulegra varplanda í þessu tilviki, og áhrif eins þáttar landnotkunar á hann, skógræktar í þessu tilviki. Þó lítið sé að marka þær tölur sem Ólafur K. Nielsen slær fram þá vil ég ekki heldur útiloka að áhrif aukinnar útbreiðslu skóga á fuglastofna geti verið einhver og þá ýmist jákvæð eða neikvæð. Ekkert af þessu er þó að dynja yfir á skömmum tíma og því er óþarfi að örvænta. Skógrækt er ekki u.þ.b. að fara að útrýma neinni fuglategund. Það er þó full ástæða til að stunda frekari rannsóknir á áhrifum skógræktar á fuglastofna og þá í leiðinni á áhrifum annarra þátta landnotkunar. Á grundvelli þeirra verður hægt að betrumbæta áherslur í landvali til skógræktar.

Hvað gerir tegund ágenga?

Þóra Ellen Þórhallsdóttir gerir svokallaðar ágengar tegundir að umræðuefni í sínu Moggaviðtali 20. október. Þar heldur hún fram að sumar af þeim trjátegundum sem notaðar eru í skógrækt hérlendis séu flokkaðar sem ágengar í öðrum löndum. Við þá staðhæfingu er eitt og annað sem þarfnast skýringar. Fyrst er spurningin um hvað geri tegund ágenga, þ.e.a.s. hvernig er hægt að þekkja mun á ágengri tegund og öðrum sem ekki eru ágengar? Um þetta hefur verið talsverð umræða meðal fræðimanna á liðnum árum en engin niðurstaða sem samhljómur hefur náðst um. Hópar svokallaðra innrásarlíffræðinga hafa gefið sér forsendur og birt lista yfir tegundir sem þeir telja vera ágengar, stundum kallaðir svartir listar. Sú vinna hefur jafnharðan verði gagnrýnd af öðrum líffræðingum, einkum fyrir það að forsendur eru óskýrar, byggðar á hugmyndafræði sem ekki stenst nánari skoðun eða að það sem lagt er til grundvallar sé ekki hægt að mæla.

Hina opinberu íslensku skilgreiningu á ágengri framandi lífveru er að finna í náttúruverndarlögum. Hún er á þessa leið:

Ágeng framandi lífvera: Framandi lífvera sem veldur eða líklegt er að valdi rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni.

Svo kemur fram að framandi lífvera er sú ...

sem menn hafa flutt vísvitandi eða óvitandi út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði

og enn fremur að líffræðileg fjölbreytni sé ...

breytileiki meðal lifandi vera á öllum skipulagsstigum lífs, þar á meðal í vistkerfum á landi, í sjó og í ferskvatni. Hugtakið tekur til vistfræðilegra tengsla milli vistkerfa og nær til fjölbreytni innan tegunda og milli tegunda og vistkerfa.

Í öðrum löndum eru svipaðar almennar og loðnar skilgreiningar sem ekki er heldur hægt að byggja góða ákvörðun á um hvað sé ágeng lífvera og hvað ekki.

Í lögum hafa sem sagt aðeins mjög almennar og að mörgu leyti óskýrar skilgreiningar verið teknar upp. Í hinni fræðilegu umræðu er rætt um eiginleika sem gera lífverur líklegar til að verða ágengar. Hraður vöxtur, ör fjölgun, miklir hæfileikar til dreifingar og geta til að þrífast við mismunandi aðstæður eru þar efst á lista. Við það má svo bæta sýnileika og viðráðanleika, þ.e. hversu auðvelt er að fylgjast með útbreiðslu og hvort hægt er að stöðva hana með góðu móti.

Þar sem skilgreiningin á líffræðilegri fjölbreytni er mjög víðtæk er ljóst að erfitt er að mæla hana. Oftast telja líffræðingar fjölda tegunda innan sumra lífveruhópa, t.d. háplöntur eða fugla, stundum bjöllur eða fiðrildi, sjaldnast sveppi eða annað sem er þaðan af erfiðara að finna eða greina til tegunda. Sömu líffræðingar viðurkenna að slíkar talningar séu ekki mælikvarði á líffræðilega fjölbreytni í heild og tala þess í stað um „tegundaauðgi“ tiltekins lífveruhóps, sem er e.t.v. hluti líffræðilegrar fjölbreytni en gefur engan veginn heildarmynd. Ekki er hægt að sýna fram á að fylgni sé á milli fjölda tegunda innan einstakra lífveruhópa og líffræðilegrar fjölbreytni almennt, einkum af því að ekki er hægt að mæla heild líffræðilegrar fjölbreytni.

Hugtakið „rýrnun“ í skilgreiningunni á ágengri framandi tegund þýðir að leggja þurfi mat á magnbundin áhrif á líffræðilega fjölbreytni í heild sem er vandkvæðum bundið. Þess vegna taka sumir til þess ráðs að varpa grun um ágengni á allar nýlega innfluttar tegundir, burtséð frá eiginleikum þeirra. Það er afstaðan sem Þóra Ellen Þórhallsdóttir tekur í viðtali sínu í Morgunblaðinu. Ekkert þarf að sanna, erlendur uppruni nægir til að kalla trjátegund ágenga.

Íslensku skógartrén ekki ágeng

Stafafura getur sáð sér út, einkum í nálæga mela og rofið land, en þetta gerist hægt, sést mjög vel og auðvelt er að bregðast við ef hamla þarf gegn dreifingu hennar. Trjátegundir sem notaðar eru í skógrækt á Íslandi eru ekki ágengar samkvæmt skilgreiningu í lögum um náttúruvernd. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÞær innfluttu trjátegundir sem notaðar eru í skógrækt á Íslandi hafa ekki þá eiginleika sem gera tegundir ágengar. Þær eru mörg ár að vaxa, mörg ár líða þar til þær fara að bera fræ, dreifingargeta þeirra er takmörkuð og þær þrífast ekki hvar sem er. Auk þess eru þær vel sýnilegar og mannkynssagan öll hefur sýnt það og sannað að hægur vandi er að eyða trjágróðri, sé hann þar sem fólk vill ekki hafa hann. Það eina sem eftir er og gæti mögulega gert þær ágengar er erlendur uppruni þeirra.

Vissulega þrífast ekki sömu tegundir lífvera innan skógar og utan hans og tilkoma skógar hefur því breytingar á tegundaauðgi í för með sér á staðarvís, en ekki þó endilega rýrnun nema e.t.v. tímabundið. Þar meina ég að við allar breytingar á vistkerfum hætta aðstæður að henta sumum tegundum lífvera en fara þess í stað að henta öðrum. Oftast líður nokkur tími frá því að gömlu tegundirnar hopa og þar til þær nýju nema land og því fækkar tegundum tímabundið. Þetta fyrirbæri er mikið rannsakað, vel þekkt og er nánast náttúrulögmál í tengslum við vistkerfisbreytingar. Þau Þóra og Ólafur byggja sína gagnrýni á skógrækt að hluta á þessari þekkingu. Það er því mjög undarlegt að þau skuli bæði tvö afneita þessu í tengslum við endurheimt votlendis, sem þau dásama bæði í Morgunblaðsviðtölum sínum og leggja fram sem umhverfisvænni leið en skógrækt. Það á þó ekkert síður við um endurheimt votlendis að við endurheimtina hætta aðstæður að henta sumum tegundum og fara að henta öðrum í staðinn. Á milli hvarfs gömlu tegundanna og landnáms þeirra nýju er tímabil þar sem tegundum fækkar. Fyrir tegundaauðgi er ekki allur munur á skógrækt og endurheimt votlendis hvað þetta fyrirbæri varðar. Ef skógrækt hefur áhrif á fuglastofna og samsetningu gróðurs, þá gerir endurheimt votlendis það ekki síður og útkoman er sú sama – sumum tegundum í hag, öðrum í óhag.

Auðvitað!

Auðvitað er enginn áhugi fyrir því að skógrækt skaði fuglastofna eða annað í lífríkinu. Auðvitað ekki! Auðvitað tökum við hjá Skógræktinni tillit til umhverfis- og verndarþátta þegar við skipuleggjum skógrækt. Auðvitað! Um leið verðum við að rækta meiri skóg til kolefnisbindingar og það með blönduðum aðferðum útbreiðslu náttúruskóga og ræktunar skóga stórra og nytsamra trjátegunda. Finna þarf leiðir til að láta þetta fara vel saman. Það hefur verið gert og verður áfram gert með rannsóknum og með því að þróa áfram hvernig tillit sé tekið til verndarþátta við ákvarðanatöku í skógrækt. Í þeim efnum gera býsn og upphrópanir ekkert gagn. Rógur er ekki heldur vænlegur til árangurs.

Texti: Þröstur Eysteinsson