Alþjóðlega efnahagsráðið lætur nú til sín taka til verndar skógum heimsins og útbreiðslu þeirra með …
Alþjóðlega efnahagsráðið lætur nú til sín taka til verndar skógum heimsins og útbreiðslu þeirra með metnaðarfullu verkefni sem féll í frjóan jarðveg á nýafstöðum fundi ráðsins í Davos í Sviss.

Tvö alheimsverkefni hafa nú það markmið, hvort um sig, að gróðursetja þúsund milljarða trjáa víðs vegar um heiminn. Annað verkefnið er að frumkvæði alþjóðlega efnahagsráðsins og hlaut mikinn meðbyr á nýafstöðnum fundi ráðsins í Davos í Sviss. Í hinu verkefni er markmiðið sett við árið 2050 og geta allir jarðarbúar tekið þátt í því og merkt gróðursetningar sínar inn á heimskortið. Tveir Íslendingar hafa gert þetta nú þegar.

Í júlíhefti bandaríska vísindatímaritsins Science birtist grein eftir rannsóknahóp í Zürich í Sviss sem vakið hefur mikla athygli á nýskógrækt sem „náttúrlegri lausn“ í loftslagsmálum. Fjallað var um greinina hér á skogur.is þegar hún kom út. Í greininni færa höfundar rök fyrir því að á jörðinni séu 0,9 milljarðar skóglausra hektara þar sem rækta mætti skóg án þess að skerða land sem nýtt er undir þéttbýli eða nytjað til jarðyrkju (matvælaframleiðslu). Þeir leiða rök að því að ef skógur væri ræktaður á þessum tæplega milljarði hektara, myndi sá skógur gleypa um tvo þriðju hluta þess kolefnis sem mannkyn hefur losað út í andrúmsloftið frá því að iðnbylting hófst. Þetta land sem er laust til skóggræðslu má sjá á kortinu hér að neðan. Þar er Ísland talið með (og grænmerkt). Greinarhöfundar  áætla að minnst fjórðungur Íslands gæti borið skóg, eða 25 milljónir hektara. Skógur á fjórðungi landsins gæti gert margfalt meira en bara kolefnisjafnað losun Íslendinga; hann gæti bundið sem nemur losun rúmlega fimm íslenskra hagkerfa.

Heimskort sem sýnir hvar væri hægt að rækta nýjan skóg á jörðinni án þess að þrengja að þéttbýli eða matvælaframleiðslu. Á dökkgrænum svæðum eru mestu möguleikarnir. Kort frá The Washington Post unnið upp úr gögnum frá ETH í Zürich

Stuðningur í Davos

Þessar hugmyndir um stóraukna ræktun loftslagsskóga fengu byr í seglin í á árlegum fundi alþjóðlega efnahagsráðsins, World Economic Forum, sem nýlokið er í Davos í Sviss. Þar var hrundið af stað  verkefninu Trillion Trees, alþjóðlegu átaki sem miðar að því að hvetja stjórnvöld, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklinga til að græða land skógi og með því að hjálpa í baráttunni gegn hamfarahlýnun. Markmiðið er að gróðursett verði ein billjón trjáa, með öðrum orðum þúsund milljarðar.

Gróðursetjið tré, ráðleggur Jane Goodall

Sérstaklega vakti það athygli á þessum fundi að Donald Trump lýsti fullum stuðningi Bandaríkjastjórnar við átakið. En á fundinum talaði líka hin merka breska vísindakona Jane Goodall sem er fræg fyrir ævistarf sitt til verndar simpönsum og búsvæðum þeirra í Afríku. Tré og skógar gegna mikilvægu hlutverki í öllu starfi hennar. Í verkefninu TACARE sem hún stofnaði til er unnið með fólki í yfir 100 þorpum á svæðum simpansanna í Tansaníu. Starfið felst í því meðal annars að stuðla að eflingu náttúrugæða, vatnsvernd, menntun stúlkna og fleira enda stuðli hraustari náttúra og heilbrigðara og upplýstara samfélag manna að því að simpansarnir geti þrifist áfram.

Þegar fólk spyr Jane Goodall hvað það geti gert í umhverfismálum segist hún ráðleggja því að gróðursetja tré. Hún stofnaði ásamt tólf framhaldsskólanemum í Tansaníu til annars verkefnis sem heitir Roots and Shoots og vinnur að mannúðar- og umhverfismálum. Verkefnið hefur nú breiðst til um sextíu landa víða um heiminn og trjárækt er þar ein meginundirastaðan. Á síðasta ári voru gróðursettar um fimm milljónir trjáplantna á vegum þess og annað eins verður gróðursett á þessu ári að minnsta kosti.

Komum Íslandi betur á kortið!

Þessi mynd gefur góða mynd af fjölþættri nytsemi þess að rækta skóga og vernda þá sem fyrir eru. Mynd af vefnum trilliontrees.orgAnnað átak af sama toga og verkefni alþjóðlega efnahagsráðsins kallast The Trillion Tree Campaign. Það er rekið af samtökum sem nefna sig Plant for the Planet eða  „Gróðursetjum fyrir hnöttinn“. Þar er markmiðið líka að gróðursetja eða vernda eina billjón trjáplantna fyrir árið 2050.

Verkefnið nýtur stuðnings UNEP, umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og vísar í heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það miðar að því að gróðursetja tré um allan heim. Hingað til hefur tekist að koma í jörð 13.604.327.866 trjáplöntum, eða 1,36% af þeim trjáplöntufjölda sem stefnt er að. Skoða má kort af einstökum gróðursetningarstöðum hér. Þar sést að tvær íslenskar konur hafa skráð á kortið upplýsingar um gróðursetningar sínar . Önnur þeirra gróðursetti 50 tré í nágrenni Reykjavíkur en hin konan tvö tré á norðanverðu miðhálendinu. Mjór er mikils vísir!

Óhætt er að hvetja alla íslenska skógræktendur til að skrá gróðursetningar sínar á þessum vef og fjölga með því punktunum á Íslandskortinu. Það vekur athygli umheimsins á því að hér sé líka verið að rækta loftslagsskóga af miklum metnaði.

Texti: Aðalsteinn Sigurgeirsson og Pétur Halldórsson