Ljósmynd af vef Reo Tuote
Ljósmynd af vef Reo Tuote

Eigendur Hrafnhóla undir Esjuhlíðum sunnanverðum hafa sótt um leyfi til að reisa tvö gróðurhús, hvort um sig 2.500 metra að stærð, til að rækta skógarplöntur. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Áður hefur verið fjallað um uppbyggingu gróðrarstöðva til skógarplöntuframleiðslu hér á skogur.is og sagt frá nýjum framleiðendum sem hyggjast taka þátt í slíkri framleiðslu. Í Morgunblaðinu kemur fram að umsókn eigenda Hrafnhóla sé til meðferðar hjá skipulagsyfirvöldum í Reykjavík en landið er innan marka borgarinnar, skammt frá sveitarfélagamörkum við Mosfellsbæ.

Enn fremur segir í frétt Morgunblaðsins:

Vegna áforma um aukningu skógræktar í þeim tilgangi að fullnægja skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum þarf að stórauka framleiðslu skógarplantna. Starfandi framleiðendur eru að stækka garðyrkjustöðvar sínar og nýir framleiðendur eru að huga að uppbyggingu.

Með stærstu framleiðendum

Einkahlutafélagið Monóna, sem er í eigu Ragnheiðar Jónu Jónsdóttur og Arnórs Víkingssonar, sem meðal annars stofnuðu Hannesarholt í Þingholtunum, áforma byggingu tveggja 2.500 fermetra gróðurhúsa á jörð sinni, Hrafnhólum. Þau verða úr tvöföldu plastefni sem fest er á stálgrind. Áformað er að kaupa þau af framleiðanda í Finn- landi. Verði þessi tvö gróðurhús reist verður stöðin með stærstu skógarplöntuframleiðendum lands- ins. Sólskógar í Eyjafirði hafa verið með um 3.000 fermetra gróðuhús en verið er að tvöfalda stöðina. Þá er stór garðplöntustöð í Reykholti í Biskupstungum.

Reiknað er með að 4-6 ársverk verði við framleiðsluna í Hrafnhólum.

Ein athugasemd

Ein athugasemd kom við grenndarkynningu. Eigendur sumarhúss við Skarðsveg telja að framkvæmdin gangi gegn hagsmunum þeirra. Sérstaklega nefna þeir að húsin muni skyggja á útsýni og lýsing skemmi eða takmarki verulega norðurljósa- og stjörnusýn frá þeirra lóð. Þá benda þeir á að framkvæmdir séu þegar hafnar á svæðinu við lagnaskurði, rotþró og vatnsbrunn. Raunar kemur fram í umsókn eigenda Hrafnhóla að lýsing í gróðurhúsunum verði takmörkuð þar sem um sé að ræða skógarplöntuframleiðslu.

Umsóknin er enn í ferli hjá Reykjavíkurborg.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson