Metsáning var í síðustu viku hjá Sólskógum þegar sáð var til einnar og hálfrar milljónar trjáplantna…
Metsáning var í síðustu viku hjá Sólskógum þegar sáð var til einnar og hálfrar milljónar trjáplantna í einu. Þetta ber vott um aukna skógrækt í landinu. Uppbygging er hafin á ný í skógarplöntuframleiðslu hérlendis. Ljósmynd af Facebook-síðu Sólskóga

Sáð hefur verið til ræktunar einnar og hálfrar milljónar skógarplantna í gróðrarstöðinni Sólskógum á Akureyri. Þetta er stærsta sáning í sögu fyrirtækisins. Framleiðsla eykst nú hjá skógarplöntu­fram­leið­end­um og heyrst hefur af áformum um uppbyggingu nýrra stöðva.

Gísli Guðmundsson í Sólskógum klippir aspargræðlinga til fjölgunar. Ljósmynd af Facebook-síðu SólskógaKatrín Ásgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Sól­skóga, segir að á síðasta ári hafi verið afhent um ein milljón skógarplantna frá stöðinni. Á þessu ári tvöfaldist framleiðslan upp í tvær milljónir og á því næsta sé stefnt að því að afhenda þrjár milljónir plantna. Sólskógar hafa fest kaup á 3.000 fermetrum af gróðurhúsum sem sett verða upp á næstu misserum og þá tvöfaldast afkastageta stöðvarinnar frá því sem nú er. Katrín segir að því verði mögulegt að afhenda um 6 milljónir trjáplantna frá Sólskógum árið 2022.

Sólskógar framleiða aðallega rússalerki, lerki­blendinginn Hrym, stafafuru, sitkagreni, sitkabastarð og birki. Katrín segir að mikill munur sé á framleiðsluaðferðum frá einni tegund til annarrar en einnig fari það eftir því hvort notast sé við fjörutíu eða 67 gata plöntubakka. Hún segir að fyrirhuguð uppbygging Sólskóga beri þess skýran vott að fyrirtækið sjái tækifæri í þeirri aukningu sem boðuð hefur verið með loftslagsáætlun stjórnvalda.

Rótgróin stöð ræðst í skógarplöntuframleiðslu

Ræktunarmiðstöðin í Hveragerði er með mikið rými í gróðurhúsum sem sjást vinstra megin á myndinni, næst þjóðvegi 1. Stöðin hyggst nú hasla sér völl í skógarplöntuframleiðslu samhliða annarri starfsemi. Ljósmynd af south.isRæktunarmiðstöðin í Hveragerði er rótgróin gróðrarstöð sem nú hyggst sækja inn á skógar­plöntumarkaðinn. Stöðin er í eigu hjón­anna Jóhanns Ísleifssonar og Sigríðar Eiðs­dótt­ur sem hafa áratuga reynslu í rekstri gróðrarstöðva. Undanfarin ár hafa þau verið með fjölbreytta starfsemi í gróðurhúsum við Reykjamörk í Hveragerði, rækta þar sumarblóm, túlípana og önnur laukblóm en einnig afskornar rósir á um 3.000 fermetrum í gróðurhúsum.

Jóhann segir áhugavert að bæta skógar­plöntu­fram­leiðslu við þann rekstur sem fyrir er enda hafi framleiðsluferli í stöðinni breyst nokkuð að undanförnu og myndast rými fyrir nýja starfsemi. Þótt ekki hafi verið ræktaðar skógarplöntur í stöðinni undanfarin ár búi þau að þekkingu og reynslu frá fyrri tíð. Meðal annars ræktuðu þau aspir í stórum stíl fyrir asparverkefnið svokallaða sem sér víða stað á Suðurlandi þar sem vaxa myndarlegar aspir í þéttbýli og dreifbýli.

Tvö þúsund fermetra hús verða að sögn Jóhanns sett undir skógarplöntuframleiðsluna en þar þarf að koma upp vökvunarbúnaði. Keyptir hafa verið 20-30 þúsund plöntubakkar úr þrotabúi Barra og einnig sáningarvél sem þar var notuð. Hluti af ræktuninni geti orðið framleiðsla trjáplantna sem þurfi tveggja ára ræktun í gróðrarstöð.

Jóhann segir að Ræktunarmiðstöðin muni líklega bjóða í framleiðslu á öllum helstu skógar­plöntu­teg­und­um sem notaðar eru í skógrækt á Íslandi. Í vetur sem leið hafi stöðin tekið að sér að rækta um 50.000 aspir af því sem boðið var út á vegum Skógræktarinnar og vonast Jóhann til að framhald verði á því. Þegar endurbætur hafi verið gerðar á stöðinni reiknar hann með að hægt verði að framleiða að minnsta kosti eina milljón trjáplantna á ári í Ræktunarmiðstöðinni með því að sá tvisvar á ári. Hann segir að auðvitað sé rennt nokkuð blint í sjóinn með þetta en treystir á að staðið verði við áætlanir um aukin framlög hins opinbera til skógræktar.

Óskað eftir nýju fólki að rekstri Kvista

Ræktunarbeð og gróðurhús hjá Garðyrkjustöðinni Kvistum í Biskupstungum. Ljósmynd af Facebook-síðu KvistaAuk Sólskóga hefur Garðyrkjustöðin Kvistar verið eina gróðrarstöðin undanfarin misseri sem enn er í rekstri og fram­leiðir skógarplöntur í stórum stíl. Hólmfríður Geirsdóttir hjá Kvistum segir að aukning hafi verið á skógarplöntu­fram­leiðsl­unni um 200 þúsund plöntur frá því í fyrra og svipuð aukning verði á næsta ári. Framleiðslan sé í kringum 1,2 til 1,3 milljónir trjáplantna af stafafuru, sitkagreni, birki og alaskaösp. Hins vegar segir Hólmfríður að tekin hafi verið ákvörðun um að selja skógarplöntuhlutann af rekstrinum enda vilji þau hjónin draga saman seglin eftir um 40 ár í greinni. Hún vonast til að ungt og atorkumikið fólk komi og taki við skógarplöntuframleiðslunni enda slái hjarta hennar með skógrækt í landinu og hún vilji að framleiðslan haldi áfram.

Úr gróðurhúsum Kvista. Ljósmynd af Facebook-síðu KvistaSkógarplöntustarfsemi Kvista skiptist í raun í tvær gróðrarstöðvar, Garðyrkjustöðina Kvista og Garðyrkjustöðina Stórafljót. Samtals eru 6.000 fermetra gróðurhús undir skógar­plöntu­fram­leiðsl­una í þessum tveimur stöðvum auk myndar­legra aðstöðuhúsa og útiaðstöðu í góðu skjóli. Nóg sé af heitu og köldu vatni auk rafmagns og aðstaðan fyrsta flokks. Hólmfríður segir að framleiðslugetan í þessum húsum sé um þrjár milljónir skógarplantna á ári miðað við eina sáningu á ári en fjöldinn geti verið mjög breytilegur eftir til dæmis fjölda trjáplantna í bakka, hvort sáð er einu sinni eða tvisvar á ári og svo framvegis. Kvistar eru með samninga um skógar­plöntu­framleiðslu fram til 2022 en þá verða síðustu skógarplönturnar afhentar ef enginn tekur við rekstrinum.

Hólmfríður bendir á að skógarplöntuframleiðsla þurfi mikinn undirbúning. Ekki sé hægt að koma í dag og biðja um að sáð sé til skógarplantna á morgun sem afhentar verði eftir nokkra mánuði. Talsvert vanti á skilning fólks á þessu, jafnvel innan skógargeirans. Helst verði fólk að hugsa tvö ár fram í tímann og því vonast hún til að áhugasamt fólk hafi samband sem fyrst sem vilji mögulega taka við skógar­plöntu­fram­leiðslu Kvista. Raunar hafi fólk haft samband og lýst yfir áhuga en ekkert sé fast í hendi með það. Ef ekkert verður af slíku verður svipuð starfsemi í Kvistum áfram næstu tvö árin en engin sáning til skógarplantna 2022 og starfseminni hætt eftir síðustu afhendingu það ár. Nýir eigendur verði að koma til skjalanna tímanlega ef ekki eigi að koma eyða í framleiðsluna.

Nýjar stöðvar?

Heyrst hefur að undanförnu að uppi séu áform um uppbyggingu gróðrarstöðva víðar um land sem myndu bjóða í skógarplöntuframleiðslu. Nokkrar smærri stöðvar hafa nú þegar tekið að sér hluta af ræktun aspargræðinga og einhver tækifæri eru fyrir slíkar stöðvar að taka að sér sérhæfðari framleiðslu, til dæmis á reyniviði og öðrum tegundum sem eru minna ræktaðar. Spennandi verður að sjá hver þróunin verður á næstu misserum. Þá eru í landi Hrafnhóla í uppsveitum Kjalarness uppi áform um að reisa gróðrarstöð til trjáplönturæktar. Arnór Víkingsson, eigandi Hrafnhóla, er í forsvari fyrir þetta verkefni og segir að í undirbúningsvinnunni hafi víða verið leitað ráða, ekki bara innanlands heldur hafi Svenska skogsplantor í Svíþjóð sýnt verkefninu áhuga og stuðning. Enn sé þó ekki ljóst hvort af framkvæmdum verður og þá hvenær, en það ætti að skýrast nær haustinu.

Texti: Pétur Halldórsson