Alþjóðlegur dagur skóga hjá Sameinuðu þjóðunum er 21. mars. Árið 2016 er þessi dagur helgaður skógum og vatni. Skógar tempra vatnsrennsli og stöðva næringarefni sem ella gætu tapast og runnið til sjávar. Þeir koma í veg fyrir jarðvegseyðingu, fóstra fjölbreytilegt jurta- og dýralíf og hreinsa líka vatnið. Það er dýrmætur eiginleiki því víða um heim þarf fólk að reiða sig á yfirborðsvatn til drykkjar. Skógareyðing dregur úr öllum þessum jákvæðu áhrifum skóga en nýskógrækt eða skóggræðsla stuðlar að þeim. Verndum skóga, ræktum skóga!