Selskógur í Skorradal verður opinn sunnudagana 8. og 15. desember fyrir fólk sem vill koma og höggva sitt eigið jólatré og upplifa aðventustemmningu í skóginum.

Opið verður frá kl. 11-16 báða dagana og að sjálfsögðu verður hitað kaffi yfir eldi, jafnvel kakó kannski verða piparkökur eða kleinur í bauk. Komið bara og sjáið hvað setur.

Selskógur er spilda úr landi Indriðastaða, sunnan við Skorradalsvatn. Ef komið er yfir Dragháls úr Svínadal má fljótt sjá Selskóg í Skorradal á vinstri hönd. Birkið í Selskógi hefur þést mikið og breiðst út eftir friðun en einnig hefur þar verið gróðursett mikið af sitkagreni og rauðgreni. Skógurinn gefur falleg jólatré á hverju ári.

Velkomin í Selskóg 8. eða 15. desember!

Upplýsingar um fleiri viðburði tengdar jólum, jólatrjám og skógum á aðventunni má finna hér.