Ástæðurnar fyrir því að tré eru nauðsynleg í borgum og bæjum heimsins verða ræddar á málstofu sem verður hliðarviðburður 30. mars á sjálfbærniþingi UNECE, efnahagsráðs Sameinuðu þjóðanna í Evrópu.

Málstofan verður send út á vefnum og er öllum opin. Hún fer hins vegar fram í Genf í Sviss. Inngangsfyrirlestur flytur Stefano Boeri sem rekur fræga arkitektastofu í Mílanó á Ítalíu, Stefano Boeri Architetti, þar sem meðal annars hafa verið hönnuð gróðri klædd háhýsi og fleiri mannvirki og þéttbýlisumhverfi þar sem tré og annar gróður er snar þáttur í allri hönnun. Erindi sitt kallar hann á ensku The City of the Future is a Biodiversity Metropolis sem segir að framtíðarborgin sé stórborg líffjölbreytninnar.

Ana Luisa Soares frá Lissabonháskóla talar um kosti þess fyrir öll þéttbýlissamfélög að fjárfesta í trjám. Thomas Randrup frá sænska landbúnaðarháskólanum LTU ræðir hvernig við getum búið svo um hnútana að borgir og bæir framtíðarinnar verði grænir og henti öllu fólki. Síðasta erindið flytur Bekkul Szhekshenkulov frá borginni Bishkek í Kirgístan og fjallar um hvernig virkja megi borgir til athafna svo svæðis- og landsáætlanir náist. Á eftir verða stuttar umræður.

Erindin hefjast kl. 7.30 að íslenskum tíma og málstofunni lýkur um 8.40.

Skráning

Frétt: Pétur Halldórsson