Fagráðstefna skógræktar 2023 verður haldin á Ísafirði 29.-30. mars 2023. Þema ráðstefnunnar verður „Skógrækt á tímum hamfarahlýnunar“.

Þetta er tveggja daga ráðstefna og er fyrri dagurinn helgaður þema hennar. Síðari dagurinn er vettvangur fjölbreyttra erinda og kynninga á málefnum sem snerta skógrækt, skógrannsóknir, skógtækni og skyld efni. Auglýst verður eftir erindum og veggspjöldum í byrjun nýs árs.

Fagráðstefna skógræktar er haldin í samstarfi Skógræktarinnar, Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarfélags Íslands, Skógfræðingafélags Íslands og Bændasamtaka Íslands.

Ráðstefnan hleypur til milli landshluta. Síðast var hún haldin á Hótel Geysi í Haukadal 2022 en í Vestfirðingafjórðungi fór hún síðast fram árið 2016 og þá á Patreksfirði.