Ein af servíettum Þorsteins Valdimarssonar og forsíða væntanlegrar bókar
Ein af servíettum Þorsteins Valdimarssonar og forsíða væntanlegrar bókar

Ættingjar Þorsteins Valdimarssonar skálds vinna að útgáfu bókverks með servíettum sem skáldið orti limrur á. Allar þessar limruservíettur komu fyrst fyrir almenningssjónir á sýningu sem Bókasafn Kópavogs hélt um ævi Þorsteins og störf haustið 2018 í tilefni af aldarminningu skáldsins.

Sýningargestir sýndu limruservíettunum mikla athygli sem varð ættingjunum hvatning til þess að þær yrðu gefnar út. Að sögn ættingjanna hafði Þorsteinn einkar fagra rithönd og gerði sér það til gamans að skrifa limrur sínar á servíettur. Þannig sé hver servíetta skáldsins listaverk.

Í væntanlegri bók, Limrur á servíettum, verða nákvæmar eftirprentanir af þeim 43 limrum sem Þorsteinn hafði ritað á þurrkurnar. Tíu þeirra birtust áður í bók hans, Limrum, árið 1965 en 33 hafa ekki áður birst á prenti og er því fengur að þeim fyrir þá sem unna bragarhættinum. Trausti Þorsteinsson og Þorsteinn Gunnarsson rita Inngang bókarinnar, Unnar Erlingsson sá um hönnun og umbrot og bókaútgáfan Skrudda gefur hana út.

Þá kemur einnig fram í tilkynningu frá ættingjunum að limrurnar 33 sem í bókinni birtast í fyrsta sinn séu margar til vitnis um hve gott vald skáldið hafi haft á móðurmálinu og rími. Í þeim kenni margra grasa, allt frá dægurumræðu til stjórnmálalegra og heimspekilegra hugleiðinga. Þær séu oft fullar af gáska og orðaleikjum fremur en alvöru, flestar hverjar hæfilega léttruglaðar að hætti bresku hefðarinnar eins og fyrri limrur skáldsins.

Til að tryggja fjármögnun verksins er ættingjum og velunnurum skáldsins boðið að kaupa bókina fyrir fram á 6.000 krónur og skrá sig á heiðurslista (tabula honoraria) sem birtur verður í bókinni. Skráningarsíðu má finna á fésbókarsíðunni Aldarafmæli skálds. Við skráningu þarf að koma fram fullt nafn greiðanda, nafn/nöfn eins og það á að birtast á heiðurslista og fjöldi eintaka sem óskað er eftir að kaupa.

Frestur til að skrá sig á heiðurslistann rennur út 30. nóvember.

Sem mörgum er kunnugt var Þorsteinn mörg sumur starfsmaður Skógræktarinnar á Hallormsstað og bjó þar löngum í tjaldi á stað sem hann nefndi sjálfur Svefnósa. Þar er minnisvarði um skáldið sem komst í fréttirnar á síðasta ári þegar höfuðið af brjóstmynd Þorsteins var numið á brott. Sú saga endaði vel með því að höfuðið kom í leitirnar.

Texti upp úr fréttatilkynningu: Pétur Halldórsson