Brjóstmyndin af Þorsteini Valdimarssyni í Trjásafninu Hallormsstað. Á innfelldu myndinni má sjá hver…
Brjóstmyndin af Þorsteini Valdimarssyni í Trjásafninu Hallormsstað. Á innfelldu myndinni má sjá hvernig höfuðið hefur verið brotið af undirstöðunni. Samsett mynd: Pétur Halldórsson

Skógarverðinum á Hallormsstað barst í vikunni tilkynning um að brjóstmynd af Þorsteini Valdimarssyni skáldi væri horfin úr skóginum. Hvarfið hefur verið tilkynnt lögreglu sem þjófnaður og skemmdarverk.

Stuðlabergsstöpullinn sem brjóstmyndin af Þorsteini stóð á. Ljósmynd: Þór ÞorfinnssonBrjóstmyndin hefur staðið í Trjásafninu í Mörkinni á Hallormsstað í áratugi til minningar um Þorstein sem bæði var þekkt ljóð skáld og starfaði öðru hverju hjá Skógræktinni á Hallormsstað sem sumarstarfsmaður. Brjóstmyndin stóð þar sem Þorsteinn bjó gjarnan í tjaldi og kallaði Svefnósa.

Þorsteinn Valdimarsson (1918-1977) var fæddur í Brunahvammi í Vopnafirði, sonur hjónanna Guðfinnu Þorsteinsdóttur (sem tók sér skáldanafnið Erla) og Valdimars Jóhannssonar sem síðar bjuggu í Teigi í Vopnafirði og þar ólst Þorsteinn upp. Þorsteinn er í hópi þekktustu ljóðskálda þjóðarinnar og gaf út átta ljóðabækur á ferli sínum. Við nokkur ljóða sinna samdi hann sönglög auk þess sem hann þýddi allmörg erlend söngljóð og ljóðabálka á íslensku.

Þorsteinn vann sem fyrr segir öðru hverju á sumrum hjá Skógræktinni á Hallormsstað á árunum 1957-1969 og tók miklu ástfóstri við staðinn, skóginn og fólkið. Á mótum Kerlingarár og Króklækjar tjaldaði hann fyrst síðsumars 1957 og nefndi staðinn Svefnósa. Auðkennum staðarins gaf hann líka sín nöfn. Nálægan klett nefndi hann Klapparljónið og tunguna á lækjamótunum Eldatanga. Þar brann oft langeldur og speglaðist í hylnum Skyggni þegar skáldið kvaddi staðarfólkið saman til söngs og annarrar skemmtunar á síðkvöldum. Eitt ljóða Þorsteins, Sprunginn gítar (1960), lýsir gleðskap við Svefnósa. Og í niðurlagi ljóðsins Slóðin í síðustu ljóðabók skáldsins, Smalavísum (1977), fer ekki milli mála hvar hugurinn dvelur:

Ég greini lækinn liðast
í lágri klapparskor
við tjald mitt og hljóðna og hverfa
í húmið hin syngjandi spor

Brjóstmyndina af Þorsteini Valdimarssyni sem nú hefur verið numin á brott úr skóginum gerði myndlistarmaðurinn Magnús Á. Árnason. Að uppsetningu hennar stóðu herstöðvarandstæðingar þar sem Þorsteinn skáld var virkur meðlimur og var listaverkið afhjúpað á hátíð herstöðvaandstæðinga  á Austurlandi sem fram fór í Hallormsstaðaskógi 2.-3. ágúst 1980. 

Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi, segir að hvarf listaverksins hafi nú verið tilkynnt lögreglu sem þjófnaður og skemmdarverk. Unnendur skáldsins og skógarins vona heitt og innilega að myndin skili sér til baka og hægt verði að lagfæra hana og koma fyrir á sínum stað á ný. Allar ábendingar um hvarfið eru vel þegnar.

Texti: Pétur Halldórsson
(Frétt uppfærð 15. 8. 2022)