Skógurinn nýtist lambfénu vel til skjóls á vorin. Ljósmynd: Þórveig Jóhannsdóttir
Skógurinn nýtist lambfénu vel til skjóls á vorin. Ljósmynd: Þórveig Jóhannsdóttir

Skógrækt og sauðfjárrækt fer vel saman að mati Jóhanns F Þórhallssonar, sauðfjár- og skógarbónda í Brekkugerði í Fljótsdal. Þar sem aðstæður eru ámóta og í Fljótsdal segir hann hægt að byrja að beita lerkiskóg um tíu ára gamlan. Mikilvægt sé að grisja skóginn rétt og ljúka fyrstu grisjun fyrir fimmtán ára aldur skógarins. Skógurinn nýtist lambfénu vel til skjóls á vorin og svo aftur á haustin þegar það kemur af fjalli.

Jóhann hefur staðið fyrir búi í Brekkugerði um langt árabil og þar hefur samhliða sauðfjárræktinni vaxið upp myndarlegur skógur sem að uppistöðu til er lerkiskógur. Í samtali við skogur.is. segir hann skóginn hjá sér nýtast á margan hátt fyrir sauðfjárbúskapinn. Fyrst beri að nefna skjól fyrir féð og þá helst á vorin fyrir lambærnar. Einnig anni skógurinn girðingastauraþörf búsins. Sem kunnugt er hentar lerki mjög vel í girðingastaura og nýtist grisjunarefni úr 20-25 ára gömlum skógi vel í stauragerð. Kjarnaviður lerkisins fúnar seint enda má segja að hann sé fullur af náttúrlegu fúavarnarefni.

Skjólið dýrmætt vor og haust

Í nýliðnum sauðburði í Brekkugerði birti Jóhann myndir á samfélagsmiðlum af sauðfé sínu í skóginum sem var kveikjan að því að skogur.is hafði samband við hann til að spyrja út í reynsluna af skógarbeitinni. Aðspurður hverju það breyti í sauðburði að hafa aðgang að skógi sem þessum segir hann muna heilmiklu að geta hleypt lambfé út í skjólið í skóginum, ekki síst þegar koma köld vor sem geta verið rysjótt. Þá geti verið erfitt að koma öllu fyrir í húsunum og gott að vita af fénu í skjólinu í skóginum.

Inntur eftir því hvort hann beiti skóginn allt sumarið segir Jóhann að svo sé ekki. Skógurinn sé einungis beittur snemma á vorin og svo aftur á haustin þegar féð kemur heim af afrétt. Hann skiptir skóginum upp í tvö hólf en segir það frekar vera vegna náttúrlegra aðstæðna þar en þess að þörf sé á því til að hlífa skóginum. Hins vegar vegar sé alltaf gott að hafa beitiland hólfað niður og geta skipt fénu niður milli hólfa.

Grisjun mikilvæg

En hvernig skyldi vera best að hirða um skóginn þannig að hann henti fyrir lambfé á vorin eða til beitar? Lerki hentar vel í beitarskógrækt að mati Jóhanns þar sem það er ljóselsk trjátegund. „Lerkið hleypir birtu niður í skógarbotninn og grös eiga því auðvelt með að þrífast þar. Annar kostur fyrir lerki í beitarskógi er að börkurinn á því er þykkari en á t.d. birki sem er einnig ljóselsk tegund. Lerki er því ekki eins hætt við skemmdum á stofni trjánna af völdum búfénaðaðar. Ég er fyrst og fremst með lerkiskóg. Það er mjög mikilvægt að grisja skóginn rétt og fyrstu grisjun þarf að vera lokið fyrir 15 ára aldur skógarins og svo er gott að grisja sirka á 10 ára fresti eftir það. Mikilvægt er líka að uppkvista trén svo að botngróður fái nægt sólarljós.“

Þetta leiðir hugann að því hvort lerkiskógurinn sé sérlega hentugur í þetta umfram aðrar tegundir eða hvort skógur með öðrum trjátegundum komi einnig til greina til beitar. Eins og Jóhann segir að ofan hentar lerkiskógurinn mjög vel vegna þess hversu bjartur hann er og ríkur að botngróðri en ekki mjög viðkvæmur fyrir því að börkur sé nagaður. Jóhann telur þó að flestar henti ef vaxtarskilyrði eru góð fyrir viðkomandi trjátegundir. „Umhirðan um skógana er afar mikilvæg og hún þarf að vera samkvæmt þeim markmiðum sem á að nýta skóginn til,“ segir hann.

Skógrækt og sauðfjárrækt fer vel saman

Á myndbandi frá Jóhanni sést hestagerði í Brekkugerði sem lítur út fyrir að vera úr heimafengnum viði. „Já, þessarar myndir eru allar úr skóginum hér í Brekkugerði, segir Jóhann, og bætir við að skógrækt og kvikfjárrækt fari vel saman. „Skjól er mikilvægt í allri ræktun. Skógrækt á bújörðum hefur frá upphafi verið vel skipulögð sem er mjög mikilvægt ef árangur á að verða góður. Í upphafi var gert gróðurkort af jörðinni, sem var unnið af fagmönnum (skógræktarráðunauti). Í tengslum við vinnu að ræktunaráætlun fyrir jörðina skráði náttúrufræðingurinn Helgi Hallgrímsson náttúruminjar, fornminjar og örnefni á jörðinni. Þá var gerð áætlun sem bar nafnið Betra bú en þar var leitast við að skipuleggja framtíðarlandnýtingu á jörðinni og flétta samann skógrækt, landgræðslu og sauðfjárrækt,“ segir Jóhann bóndi.

Auk skjólsins fyrir búpeninginn og girðingastauranna er skógurinn í Brekkugerði farinn að gefa búinu tekjur af jólatrjám og er líka uppspretta fyrir heimafengið viðarkurl sem sömuleiðis er markaður fyrir. Jóhann segir að nú sé líka farið að styttast í að skógurinn í Brekkugerði gefi af sér smíðavið enda elstu trén að komast á þann aldur að hægt verði að taka tré til flettingar í borð og planka.  Allt þetta rúmast vel innan einnar starfsævi á íslenskri bújörð.

Jóhann fær þakkir fyrir samtalið og meðfylgjandi myndir. Þá er vert að minna á myndband sem Skógræktin gaf út fyrir fáeinum árum um sama efni. Myndbandið gerði Hlynur Gauti Sigurðsson.

Texti: Pétur Halldórsson