Skógræktin á Silfrastöðum í Skagafirði til umfjöllunar í Morgunblaðinu

Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, heimsótti skógarbændurna Jóhannes Jóhannsson og Þóru Jóhannesdóttur á Silfrastöðum í Skagafirði og ræddi við þau um það stórvirki sem þau hafa unnið í skógrækt á jörð sinni. Fjöldi skógarplantna sem þau hafa sett niður nálgast 1,1 milljón og það er verðugt framlag til íslensks samfélags því slíkur skógur veitir fjölmörg störf þegar tímar líða og veruleg verðmæti, myndar skjól, öflug vistkerfi, dregur úr hættu á skriðuföllum, byggir upp jarðveg, eykur fuglalíf, bætir vatnsbúskap og svo framvegis.

Mynd: Jóhannes Jóhannsson og Þóra Jóhannesdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Grein Sigurðar Boga birtist í Morgunblaðinu og á vef blaðsins í dag, sunnudaginn 22. júní, og er á þessa leið:

Jó­hann­es Jó­hanns­son skóg­ar­bóndi á Silfra­stöðum í Skagaf­irði áform­ar að gróður­setja allt að 15.000 skógar­plönt­ur í land­ar­eign sinni á þessu sumri. Liðin eru 23 ár síðan Jó­hann­es snéri sér að skóg­rækt og fyr­ir fimm árum þótti saga til næsta bæj­ar þegar 1.000.000. skógarplant­an í Silfrastaðalandi var sett í jörð. Nú nálg­ast þær 1,1 millj­ón og dafna vel. Það sjá veg­far­end­ur sem aka fram Skaga­fjörð.

Silfrastaðir eru syðsti bær í Blöndu­hlíð og eru skóg­ar­lönd jarðar­inn­ar frá Bólugili í norðri að Kotá í Norðurár­dal, skammt áður en ekið er upp á Öxna­dals­heiði. Þetta belti er alls um tíu km langt og eru efstu trén í um 400 metra hæð uppi við kletta.

„Þetta starf er heil­mikið púl en afar skemmti­legt. Við get­um farið á fjór­hjól­um hér um brekk­urn­ar með plönt­ur til gróður­setn­ing­ar. Okk­ur hef­ur gengið vel að und­an­förnu og á góðum degi náum við að koma 700 til 800 plönt­um í jörð. En þegar við erum hér uppi í svona brött­um hlíðum verður þetta taf­sam­ara,“ sagði Jó­hann­es þegar Morg­un­blaðsmaður hitti þau Þóru Jó­hann­es­dótt­ur eig­in­konu hans í síðustu viku. Þau voru þá að gróður­setja sprota við Kotá í Norðurár­daln­um – og hvað annað en lerki? Reynsl­an sýn­ir að lerkið dug­ar einkar vel til dæm­is í grýtt­um jarðvegi og þar sem hvassviðrasamt eða snjóþungt get­ur orðið.

Tek ekki pen­inga í gröf­ina

Skóg­rækt­ar­starf á Silfra­stöðum hófst 1991 og eru hæstu trén á svæðinu nú orðin um 10 m há. Tals­vert er síðan byrjað var að grisja skóg­inn. Þó að það sé í smá­um stíl enn sem komið er eru nytjarn­ar orðnar tals­verðar. Nokkuð fell­ur til af spír­um sem notaðar eru sem girðing­ar­staur­ar. Þá er sprek góður eldiviður.

„Tekj­urn­ar af bænda­skóg­rækt­inni eru ekki mikl­ar til að byrja með. En pen­ing­arn­ir koma í fyll­ingu tím­ans. Eft­ir þrjá­tíu ár eða svo verður þessi skóg­ur far­inn að skila góðum smíðaviði – og raun­ar eru marg­ir farn­ir að nýta til­tækt ís­lenskt timb­ur við fram­kvæmd­ir sín­ar. Skóg­ur­inn eyk­ur verðgildi þess­ar­ar jarðar en sjálfsagt mun ég ekki lifa þá tíma að hafa mik­inn afrakst­ur af þessu rækt­un­ar­starfi. Hitt ber á að líta að maður tek­ur ekki pen­ing­ana með sér í gröf­ina svo þetta breyt­ir kannski ekki miklu. Það er góð til­finn­ing að búa í hag­inn fyr­ir kom­andi kyn­slóðir og skila land­inu af sér í betra horfi en var. Að þessu leyti er ég rækt­un­ar­maður þó að mér hafi ekki verið sýnt um slíkt meðan ég stundaði fjár­bú­skap,“ seg­ir Jó­hann­es.

Hann seg­ir þau Þóru munu stunda bú­skap á Silfra­stöðum fram á næsta ár. Er þá ætl­un­in að Hrefna, dótt­ir Jó­hann­es­ar, sem er skóg­fræðing­ur, og Johann Holzt eig­inmaður henn­ar taki við. Á annað hundrað bænd­ur eiga aðild að Norður­lands­skóg­um. Skóg­rækt þessi er stunduð með timb­urfram­leiðslu í huga en einnig til land­bóta, það er bætt skil­yrði fyr­ir fugla­líf, ferðaþjón­ustu og fleira. Fyr­ir hverja gróður­setta plöntu fá bænd­ur greidd­ar 15 kr. auk greiðslna fyr­ir sér­tæk­ari verk.

Sama ætt hef­ur setið Silfrastaði í 130 ár. Jó­hann­es, sem er 65 ára að aldri, kom í sveit­ina með for­eldr­um sín­um tveggja ára gam­all og hef­ur átt þar heima síðan.

Skýr afrakst­ur

„Í fáu sér maður afrakst­ur starfs síns jafn skýrt og í skóg­rækt. Hér erum við með alls 470 hekt­ara und­ir. Þá eru birk­isprot­ar farn­ir að stinga sér upp hér á bökk­um Norðurár og Héraðsvatna og ef að lík­um læt­ur verður þar kom­inn fal­leg­ur birki­skóg­ur eft­ir nokkra ára­tugi,“ seg­ir Jó­hann­es að síðustu.

Sjá vef Morgunblaðsins