Starfsmenn Skógræktar ríkisins og Norðurlandsskóga með fegrunardag

Starfsfólk Skógræktar ríkisins og Norðurlandsskóga á Akureyri notaði veðurblíðuna í dag til að taka til og fegra við aðsetur sitt í Gömlu-Gróðrarstöðinni á Krókeyri. Beð voru hreinsuð, sett niður sumarblóm, grisjað í skóginum og fleira.

Vel er við hæfi að þessar tvær stofnanir hafi skrifstofur í Gömlu-Gróðrarstöðinni innst í Innbænum á Akureyri þar sem Ræktunarfélag Norðurlands hóf starfsemi um aldamótin 1900. Á þessum sögufræga stað var unnið mikið frumkvöðlastarf. Lengi var öflug ræktunarstöð á Krókeyri og margt fólk kom þar til að læra fræðin og handtökin við ræktunarstarfið. Í garðinum við húsið er margt merkra trjáa og sum eru ríflega aldargömul. Undanfarin ár hefur verið unnið talsvert að því að fegra garðinn á ný eftir nokkurt hnignunarskeið. Í sumar verða sett upp skilti við merk tré í garðinum og jafnvel gróðursett ný tré til að auka tegundafjölbreytnina. Nokkur eplatré voru sett niður sunnan við húsið í fyrrasumar.

Framan við húsið eru falleg beð með fjölbreytilegum runna- og trjágróðri en líka blómplöntum. Þar er blóðheggur, töfratré, skrautepli, mjallhyrnir (Cornus alba), gljásírena (Syringa josikaea) og fleira fallegt. Í dag voru sumarblómin sett í beðin og líka fallegt rósakirsi (Prunus kurilensis ,Ruby') sem sést lengst til vinstri á myndinni hér.

Að sjálfsögðu var kveikt upp með viði úr skóginum, eldað ketilkaffi að skógarmanna sið og bakaðar vöfflur yfir eldi með glænýjum áhöldum sem nú voru reynd í fyrsta sinn. Vöfflurnar smökkuðust sérlega vel með rjóma og bláberjasultu. Og nú er vorið að baki og sumarið komið í Gömlu-Gróðrarstöðinni.

Valgerður Jónsdóttir og Rakel Jónsdóttir og Hallgrímur Indriðason við eldstæðið.
Kaffi í katlinum og vaffla bakast yfir eldinum.

Fyrsta vafflan úr nýja járninu.


Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri Barra, (t.h.) leit við á leið sinni heim
úr sendiferð með plöntur vestur á land.

Álmurinn fer varlega af stað.

Jóhann Thorarensen, garðyrkjumaður hjá Akureyrarbæ, og Bergsveinn Þórsson,
skógfræðingur hjá Norðurlandsskógum, við eldstæðið góða.


Eplatré við stoðirnar og skrautepli fjær. Það síðarnefnda
komið öllu lengra af stað.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson