Skúli Björnsson aðstoðarskógarvörður á Hallormsstað gerði nýverið hagkvæmniathugun á að nýta lerki til framleiðslu á gólfborðum. Á Húsavík var rekin parketverksmiðja  en hún varð nýverið gjaldþrota og keypti Límtré hf. þrotabúið.  Ákveðið var að kanna hvort hægt væri að setja af stað tilraunaverkefni með það að markmiði að nýta það efni sem fallið hefur til í grisjunum síðasta árið.

Grisjunarviður úr fyrstu grisjun hefur hingað til aðallega verið notaður í stauravinnslu, kurl eða eldivið.  Reyndar hefur Þórarinn Rögnvaldsson skógarbóndi á Víðivöllum lagt parket heima hjá sér úr u.þ.b. 30 ára gömlu lerki úr eigin skógi.  Þó að tæknilega væri hægt að vinna parket úr efninu var ekki vitað hvort þetta væri raunhæfur möguleiki á framleiðslu á stærri skala.  Skúli, ásamt Þórarni og Lofti Jónssyni skógræktarráðunaut hjá Héraðsskógum gerðu ferð norður í land í apríl og könnuðu aðstæður.  Í kjölfar ferðarinnar hafði Skúli samband við alla aðila sem við átti og fékk leyfi til að senda prufusendingu norður ef til þess kæmi. 

Til þess kom þó aldrei.  Eftir útreikninga á gefnum forsendum (meðalþvermál bols 15 cm og lengd 120 cm) reiknast Skúla til að smásöluverð á hvern fermetra af gólfefni þurfi að vera a.m.k. 19.000.- kr. til að verkefnið standi undir sér.  Ef trjábolurinn væri hins vegar 22 cm í þvermál og 180 cm á lengd (dæmigerð stærð úr annarri grisjun) væri verðið komið niður í rúmlega 12.000.-kr/m2.  Það fylgja ýtarlegir kostnaðarútreikningar bak við þessar tölur. 

Niðurstaða Skúla er að ef starta eigi þessu tilraunaverkefni og nota það efni sem liggur núna úti í skógi eða í stæðum þá þurfi að koma til verulegur fjárstyrkur í það.