Skógræktin og Landgræðsla ríkisins fá stórt hlutverk í kolefnisbindingu samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eins og fram hefur komið hér á skogur.is. Fjallað er um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í öllum íslenskum fjölmiðlum í dag og í Morgunblaðinu er rætt við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra sem segir að vinna sé þegar hafin við að undirbúa kolefnisbindingu næstu tveggja ára.

Þar segir enn fremur:

Á næsta ári fær hvor stofnun um 100 milljónir króna úr ríkisjóði „Við höfum starfshópa sem vinna nú að því að skipuleggja þetta, þ.e. hvað við viljum gera og hvar við viljum helst bera niður,“ segir hann, en von er á niðurstöðu innan fárra vikna.

Fyrri verkefni verði efld

Verkefni Skógræktarinnar og Landgræðslunnar verða fjölbreytt á næstu árum og er ætlunin að efla nytjaskógrækt á bújörðum, skógrækt á löndum stofnananna, landgræðsluskógrækt o.fl. „Fjármagnið verður notað til að styrkja einhver verkefni sem fyrir eru, t.d. samstarfsverkefni á borð við Hekluskóga og Þorláksskóga. Það blasir við að auka aðgerðir á þeim stöðum,“ segir Þröstur, en óráðið er hvaða verkefni önnur verði ráðist í, sem áður sagði. Þröstur nefnir einnig að efla þurfi rannsóknir á sviði kolefnisbindingar.

Ákveðið hefur verið að hið aukna fjármagn á næsta ári verði að stórum hluta nýtt til aukinnar gróðursetningar á birki. Auðvelt er að auka birkirækt með skömmum fyrirvara og þegar er hafin framleiðsla á hálfri milljón birkiplantna sem gróðursettar verða næsta vor. Brátt verður boðin út framleiðsla á svipuðu magni til gróðursetningar næsta haust. Einnig er ráðgert útboð á aukinni trjáplöntuframleiðslu fyrir árið 2020 þegar aukið framlag til kolefnisbindingar verður 450 milljónir, að því er fram kemur í áætlun ríkisstjórnarinnar. 

Skjámynd af frétt á vef RíkisútvarpsinsÍ samtali við Rúnar Snæ Reynisson, fréttamann Ríkisútvarpsins, segir Þröstur að hægt verði að tvö- til þrefalda nýskógrækt í landinu fyrir það fjármagn sem fæst úr aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Með áætluninni sé komin í fyrst sinn fram stefna um að nýta skógrækt til að binda kolefni og binding sé nú orðin helsta verkefni skógræktar.

Í viðtalinu er komið inn á vitneskju um bindingu og losun og segir Þröstur að ýmislegt vanti upp á vitneskju um bindingatölur í skógrækt.

„Ekkert síður en í landgræðslunni eða endurheimt votlendis. Okkur vantar til dæmis betri upplýsingar um bindingu í jarðvegi í skógi. Okkur vantar upplýsingar um sumar tegundirnar í sumum landgerðum. Þetta er hluti af bókhaldsskilum Íslands til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Þannig að við þurfum að hafa sem bestar tölur til að sjá hvað er að bindast,“ segir Þröstur.

Fram kemur einnig að gróðrarstöðvar þurfi að auka framleiðslu sína enda stóraukin plöntukaup fram undan.

 „Einkareknu gróðrarstöðvarnar hafa verið að loka hver af annarri undanfarin ár þannig að það þarf að verða ákveðin uppbygging í þeim geira,“ segir Þröstur.

Samantekt: Pétur Halldórsson