Nýgróðursett sitkagreni. Mynd: Pétur Halldórsson
Nýgróðursett sitkagreni. Mynd: Pétur Halldórsson

Bandormurinn á dagskrá þingsins í dag

Stýrihópur um sameiningu skóg­rækt­ar­stofn­ana ríkisins í eina nýja stofnun kom saman á sínum sjöunda fundi á miðviku­dag. Þá var haldið áfram vinnu við stefnu­skjal fyrir hina nýju stofnun og þá mæli­kvarða sem notaðir verða til að meta störf hennar og árangur. Einnig voru lagðar fram fyrstu hugmyndir að mögulegu skipuriti.

Í drögum að stefnuskjali nýrrar skóg­ræktar­stofn­un­ar er rakið hlutverk stofnunarinnar með vísan til þeirra laga sem um hana gilda. Tíunduð eru helstu gildi sem stofn­un­in skuli fara eftir í starfi sínu og sett upp framtíðarsýn. Í kjölfarið fylgja stefnu­áhersl­ur sem unnar eru m.a. upp úr stefnu­mót­un­ar­starfi starfsfólks undanfarna mánuði. Þar eru helstu kaflarnir eftirfarandi eins og skjalið lítur út núna:

  1. Aukin skógarþekja og landsáætlun í skógrækt
  2. Efling rannsókna og þekkingar á skógrækt á Íslandi
  3. Kynningarstarf og ímyndarvinna
  4. Skipulag og innviðir nýrrar stofnunar
  5. Markaðs- og sölumál
  6. Samstarf og áherslur gagnvart samstarfs- og hagsmunaaðilum

Á fundi stýrihópsins á miðvikudaginn var farið vandlega yfir skjalið og tóku ráðgjafar Capacent niður þær athuga­semdir sem fram komu. Þeir vinna það svo áfram en samstaða er góð um málið innan stýrihópsins.

Drög að skipuriti

Þá voru á fundinum jafnframt lagðar fram tillögur að mögulegu skipuriti fyrir nýja stofnun sem starfsfólk Capacent hefur mótað. Þar nýtast meðal annars þær hugmyndir sem fram komu í einstaklingsviðtölum við starfsfólk gömlu stofnananna nýverið. Þessar tillögur eru trúnaðarmál enn sem komið er enda nokkuð í land að þær séu fullmótaðar. og eftir að fjalla um þær og taka ákvarðanir í ráðuneytinu.

Lagasetning um nýja skógræktarstofnun

Í dag, föstudag, er á dagskrá Alþingis að umhverfis- og auðlindaráðherra mæli fyrir lögum  um nýja skóg­ræktar­stofn­un­, svo­kölluð­um bandormi sem nauðsynlegt er að afgreiða vegna gildandi laga um núverandi stofnanir. Ef það markmið á að nást að sameiningin gangi um garð 1. júlí í sumar verður að ganga hratt og vel að afgreiða málið í nefnd og umræðum þingsins með þeim athugasemdum sem kunna að berast þinginu um málið.

Texti: Pétur Halldórsson