Reglulegu samstarfi skóla og skógræktarfélags komið á

Efnt hefur verið til reglulegs samstarfs milli Skógræktarfélags Eyrarbakka og Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Á vorin aðstoðar unglingastig skólans við umhirðu en á degi íslenskrar náttúru á haustin sinna öll aldursstig skólans gróðursetningu.

Skógrækt er uppbyggileg iðja og býr í haginn fyrir framtíðina. Dýrmætt er fyrir börn og unglinga að gróðursetja tré sem þau geta fylgst með vaxa og dafna alla ævi. Að læra ræktun á ungum aldri eykur skilning ungmenna á eðli náttúrunnar og þeim ferlum sem þar eru að verki. Fréttavefur Sunnlendinga, sunnlenska.is, segir frá þessu eftirbreytniverða samstarfi skólans og skógræktarfélagsins.

Í gær, þriðjudag, heimsóttu nemendur unglingastigs Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri Skógræktarfélag Eyrarbakka á svæði þess í Hallskoti. Þar fengu þau að kynnast svæðinu og taka örlítið til hendinni. Í leiðinni var undirritaður samstarfssamningur sem kveður á um að unglingastig vinni með félaginu að minnsta kosti einu sinni á ári að útplöntun og aðstoð við umhirðu á skógræktarsvæðinu við Hallskot og einnig útplöntun á völdum svæðum í nágrenni Eyrarbakka og Stokkseyrar. 

Markmiðið með samningnum er að efla náttúru- og umhverfisvitund nemenda Barnaskólans, koma upp skólalundi á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Eyrarbakka, auka við skjólbelti og gróður í umhverfi Eyrarbakka og Stokkseyrar og koma á samstarfshefðum milli skólans og skógræktarfélagsins. Samvinna þessi verður tvisvar hvert skólaár að lágmarki. Að vori aðstoðar unglingastig skólans við umhirðu og að hausti, á degi íslenskrar náttúru, sinna öll aldursstig skólans útplöntun.

Samninginn undirrituðu Magnús J. Magnússon skólastjóri og Daði Viktor Ingimundarson deildarstjóri fyrir hönd skólans en Siggeir Ingólfsson og Ingófur Hjálmarsson formaður fyrir hönd Skógræktarélagsins eins og fram kemur á vefnum sunnlenska.is.