Eins og við sögðum frá fyrir skömmu hér á skogur.is kom danski skógarverktakinn Peter Laursen til Ísland í boði skógræktarstjóra Skógræktar ríkisins. Tilefni ferðarinnar var að fá mat Peters á því hvort komið væri að þeim tímapunkti í íslenskri skógrækt að hægt væri að nota skógarhöggsvél til að takast á við þau stóru grisjunarverkefni sem framundan eru í þjóðskógum landsins. Mat Peters var að hér væri orðin til verðmæt auðlind sem væri fyllilega sambærileg við það sem gerðist í Danmörku. Stóru sitkagreniskógarnir í Skorradal væru af þeirri stærðargráðu að þar væri hægt að nota stórvirkar skógarhöggsvélar.

Í framhaldi af ferð Peters var ákveðið að fá til landsins skógarhöggsvél til reynslu og spreyta sig í sitkagreniskógunum á Stálpastöðum í Skorradal. Vélin kom til landsins í gær og farið verður með hana í Skorradal á morgun. Í þessari fyrstu atrennu mun vélin vinna á Stálpastöðum til 21. desember.

Mikill áhugi er á skógarhöggsvélinni og hefur Skógrækt ríkisins því ákveðið að bjóða áhugafólk og fjölmiðla velkomna á Stálpastaði fimmtudaginn 17. desember á milli kl. 13:00 – 16:00. Vélstjórinn, Lars Fredlund, mun þá sýna virkni vélarinnar og svarar spurningum. Allir velkomnir.


Athugið!

Af öryggisástæðum er öll umferð um svæðið á öðrum tímum stranglega bönnuð.

Mynd: Vedskov