Raunvirðið aukist jafnt og þétt nánast frá iðnbyltingu

Hægt er að stunda nytjaskógrækt á Íslandi með hagnaði og eftirspurn eftir viði hér á landi er margföld á við framboðið, sérstaklega frá kísiliðnaðinum. Eyðing skóga heimsins veldur því að viður verður sífellt verðmætari og verðmæti hans hefur aukist jafnt og þétt nánast frá iðnbylting. Þetta segir Arnór Snorrason, skógfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Rætt var við hann í Fréttablaðinu í gær.

Í umfjöllun Svavars Hávarðssonar blaðamanns er vísað til nýlegrar fréttar hér á skogur.is um eyðingu skóga í heiminum sem dregið hefur úr undanfarin ár þótt betur megi ef duga skal. Hitabeltisskógarnir eiga enn undir högg að sækja en víða á norðlægari breiddargráðum eru skógar í sókn og það gildir um Ísland þótt þróunin sé hæg. Blaðið rifjar upp niðurstöður endurkortlagningar náttúrulegu birkiskóganna á Íslandi sem kynntar voru í febrúar þar sem í fyrsta skipti frá landnámi var staðfest að birkiskógar landsins væru að stækka. Þeir þekja nú um 1,5% landsins, 1.506 ferkílómetra, og hafa breiðst út um 10% frá árinu 1989, um 130 km3. Vísað er til opinberra markmiða um að tífalda skógarþekju á landinu fram til næstu aldamóta svo þeir þeki a.m.k. 12% af flatarmáli Íslands. Þá segir í Fréttablaðinu:

Arnór Snorrason, skógfræðingur hjá Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, sem stýrði verki við kortlagningu birkiskóganna, segir að þróunin á Íslandi sé með öðrum hætti en í heiminum almennt og sérstaklega í skógum hitabeltisins. Þróunin hér sé svipuð og í Evrópu og á norðlægari slóðum þar sem skógar stækka. Það skýrist af tvennu. Töluvert er gróðursett en birkiskógar landsins auka líka við sig, en 2/3 eru erlendar trjátegundir.

Fleiri í svipaðri stöðu og við

Hlýnun er ein ástæða þessa, þó aldrei sé hægt að draga upp svo einfalda mynd af þessari þróun. En skógarnir hafa tekið mjög vel við sér og eru að sá sér af miklum krafti allvíða. Þessi þróun getur snúist við á nokkrum stöðum á landinu ef vatnsbúskapurinn breytist mikið, t.d. í Vestur-Húnavatnssýslu og norðan Vatnajökuls, segir Arnór hins vegar.

„Við getum verið ánægð með okkar árangur, skógrækt gengur vel og ljóst að hér er hægt að stunda nytjaskógrækt með hagnaði. Eftirspurn eftir viði í því samhengi er margföld miðað við framboðið, sérstaklega frá kísiliðnaðinum,“ bætir Arnór við.

Þegar spurt er um Ísland og stöðu skóga og skógræktar í erlendum samanburði segir Arnór að í Vestur-Evrópu hafi staðan verið svipuð og hér á einhverjum stigum. Þar má nefna England og Írland sem voru að kalla skóglaus um tíma. Þau lönd sneru dæminu við mun fyrr en gert var hér á Íslandi og gengur betur en hér. Löndin eru auðvitað fjölmennari og náttúrulegar aðstæður hagstæðari. Sama má segja um Danmörku.

„Öll þessi lönd voru að eiga við mikla gróðurrýrnun á tímabili og sneru síðar við blaðinu,“ segir Arnór og bætir við að viður skipti gríðarlega miklu máli og með hverju árinu sem líður aukist mikilvægi hans.

„Með þessari miklu skógeyðingu sem hefur orðið verður viður alltaf verðmætari og verðmætari. Nánast frá iðnbyltingu hefur raunvirði viðar aukist jafnt og þétt, og tvöfaldað sig í verði á síðustu 100 árum. Aðgengið að viði verður sífellt minna og verðið hækkar stöðugt. Þetta hvetur okkur Íslendinga til að rækta meira í okkar skóglausa landi. Skógeyðingin á sér hins vegar eðlilegar skýringar; með mikilli fjölgun mannkyns verða menn að ryðja sér land til að hafa í sig og á. Þetta er að gerast í stórum stíl í Brasilíu og löndum Afríku, Indónesíu og fleiri stöðum. Það er erfitt að glíma við þennan vanda sem á sér slíkar skýringar,“ segir Arnór.


Timburstafli á Vöglum á Þelamörk í september 2015. Mynd: Pétur Halldórsson.

Texti: Pétur Halldórsson