Í föstudagsblaði Morgunblaðsins er birt viðtal við Helga Gíslason framkvæmdastjóra Héraðsskóga/Austurlandsskóga en hann hefur sem kunnugt er verið ráðinn framkvæmdastjóri Skórgæktarfélags Reykjavíkur.

Fólk sækir í skóglendi

Helgi Gíslason er fæddur í Neskaupstað 8. október 1962. Skógræktarfræðingur frá Landbruksuniversitet í Svíþjóð og tækninám í faginu við Skogbruksskola. Réðst 1990 til Héraðsskóga sem framkv.stjóri og framkv.stjóri Austurlandsskóga frá 2001 Er nú framkv.stjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur. Helgi á eina dóttur, Tinnu Björk.


Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur ráðið nýjan framkvæmdastjóra, Helga Gíslason, og ræddi Morgunblaðið við hinn nýbakaða framkvæmdastjóra.


Hvað er svona heillandi við skógrækt?
"Það eru áhrif skógarins á manninn, eða bætt mannlíf. Fólk sækist mjög eftir útiveru í skógum. Tvö dæmi gæti ég nefnt, Heiðmörk heimsækja 250 þúsund manns á ári og Hallormsstaðaskóg um 50 þúsund. Fólki líður vel í miklum gróðri og það af margvíslegum ástæðum. Skógurinn er fagur, dulúðlegur, þar er skjól, meiri hiti og allir sem hafa komið í skóg vita að þar er meira fuglalíf en á berangri og þeir sem hafa áhuga á fuglum sækjast eftir að komast í skóga af þeim sökum.
Menning tengd skógum og skógrækt er sérstök og býður upp á öðruvísi menningu en almennt gerist. Þar er auðvelt að halda útisamkomur hverskonar, þar sem hægt er að kveikja upp varðelda og stunda fjölskylduleiki, böll og stórveislur við stórkostlegar aðstæður. Listviðburðir utanhúss eru farnir að færast meir inn í skógana. Þá er skógarhögg á veturna afar sérstök vinna sem krefst mikillar færni og við það vinna hinir mestu harðjaxlar. Sumarvinnan er að miklu leyti gróðursetningar þar sem unglingar eru oft að kynnast atvinnulífinu í fyrsta sinn og er venjulega mikil gleði og kátína ríkjandi í hópum þeirra. Síðan eiga Íslendingar orðið öfluga sveit vel menntaðra skógfræðinga og annarra sérfræðinga tengdum skógræktinni, sem stunda rekstur skóglenda, sem er í raun auðlindastjórnun, sjá um skipulagsmál, stunda tilraunir og rannsóknir."


Segðu okkur aðeins frá starfsemi Skógræktarfélags Reykjavíkur.
"Þetta er félag sem byggist á gömlum grunni og hefur í gegnum tíðina haft mikil umsvif. Félagið hefur á að skipa öflugri stjórn og reyndum starfsmönnum. Helstu umsvif þess eru umsjá Heiðmerkur fyrir Reykjavíkurborg og síðan hið merka hús Elliðavatn sem Orkuveitan á, eða elsta hluta hússins sem Benedikt Sveinsson, faðir Einars Ben., byggði 1862. Í því húsi er fyrirhugað að hafa m.a. öfluga fræðslustarfsemi sem á að geta þjónað gestum sem inngangur að Heiðmörk og starfsemi félagsins. Vilji félagsins er, að þar verði rekinn náttúruskóli. Heiðmörkin er afar fjölbreytt svæði með vötnum, votlendi, hraunum og skógi. Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hvað skógurinn þarna er stór, u.þ.b. 688 hektarar af gróðursetningum og 605 hektarar af birkiskógi og því slagar flatarmálið vel í Hallormsstaðaskóg. Núna er sala jólatrjáa í fullum gangi og fer hún að mestu þannig fram að vinnustaðir, skólar og stofnanir hafa samband við okkur og fara síðan út í skóg ásamt starfsmanni félagsins þar sem fólk velur síðan sitt jólatré sjálft."


Þínar helstu áherslur í nýju starfi?
"Þær munu helst vera umhirða, grisjun á Heiðmörk og að halda áfram þeirri ágætu uppbyggingu á útivistaraðstöðu sem þar hefur verið. Fræðslumálin verða síðan mjög ofarlega á baugi bæði til félagsmanna, sem eru 1.200, og annarra borgarbúa, en sem landsbyggðarmaður tel ég nauðsynlegt að þeir fái að kynnast þeim stórfelldu skógræktarframkvæmdum sem eru nú í gangi um land allt og að landsbyggðin fái að kynnast skógrækt á höfuðborgarsvæðinu."


Muntu breyta miklu?
"Stjórn félagsins hefur unnið að endurskipulagningu á starfseminni og hefur farið í gegnum mikla stefnumótunarvinnu og geri ég ráð fyrir að fylgja þeim línum sem þar eru lagðar."


Hver er helsti munur á skógrækt á höfuðborgarsvæðinu eða á Héraði?
"Markmið skógræktar á Héraði er að byggja upp hráefnisauðlind og með því að styrkja byggðina þar. Hér er verið að byggja upp annars konar auðlind eða bæta umhverfi þannig að fólk geti notið útivistar. Oftast fara þessi markmið ágætlega saman en þó er þarna ákveðinn áherslumunur við skipulag og vinnubrögð."


Það er oft talað um að skógrækt fari illa saman við aðra umhverfisstarfsemi, t.d. endurheimt votlendis.
"Þetta fer mjög vel saman. Það er yfirlýst stefna þeirra sem stunda skógrækt að vernda votlendi. Það hefur ekkert vistkerfi á Íslandi farið jafnilla og skógarnir okkar. Þeim hefur nánast verið gjöreytt og því hafa lífverur eins og t.d. skógarfuglar nánast alfarið tapað búsvæði sínu. Búast má við að við höfum tapað einhverjum tegundum og öðrum hafi fækkað þótt slíkt sé órannsakað. Skógrækt er almennt vel skipulögð og ávallt reynt að taka tillit til votlendis, náttúru- og mannvistarminja."


Sérðu Ísland fyrir þér í náinni framtíð, "viði vaxið milli fjalls og fjöru"?
"Nei, og því miður. Miðað við hraða skógræktarframkvæmda í dag verða aðeins um 2 prósent landsins skógi vaxin eftir hálfa öld. Núna þekur skógurinn aðeins um 0,3% af flatarmáli landsins, en var vel yfir 30% við landnám."