Ný skoðanakönnunsem IMG Gallup gerði fyrir Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá dagana 20. ágúst-22. september sl. varpar ljósi á hug almennings til skógræktar á Íslandi. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á ráðstefnu á Hallormsstað sem haldin var til heiðurs Sigurði Blöndal áttræðum 6. nóvember.[1] Í könnuninni voru 1.182 Íslendingar á aldrinum 18-75 ára spurðir 39 spurninga til þess að kanna afstöðu þeirra til skóga og skógræktar almennt og einstakra atriða er varða skógrækt sem skiptar skoðanir hafa verið um undanfarin ár. Einnig fjölluðu nokkrar spurningar um nýtingu landsmanna á skógum til útivistar og þekkingu þeirra á skógrækt og trjátegundum.

Í ljós kom að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga telur skógrækt mjög jákvæða fyrir bæði landið sjálft og fólkið sem hér býr. Samtals 93% Íslendinga telja skógrækt hafa jákvæð áhrif fyrir landið, þar af 68% „mjög jákvæð“. Þegar spurt var um áhrif skógræktar á fólkið í landinu töldu enn fleiri, eða samtals 95%, áhrifin jákvæð, þar af 64% „mjög jákvæð“. „Meiri skóg“ vilja 85% landsmanna, þar af vilja 66% stórauka flatarmál skóglendis á Íslandi. Innan við 1% vill minni skóg en nú er og 15 prósentum finnst flatarmál skóglendis „hæfilegt“. Tæpur fimmtungur landsmanna, eða 19%, stundar skógrækt og eru 3% félagar í skógræktarfélagi.

Nær allir Íslendingar (96%) telja mikilvægt að nota skógrækt til þess að stöðva og hindra jarðvegseyðingu og nánast jafnmargir telja það vera mikilvægt hlutverk Skógræktar ríkisins að bjóða upp á skóga til útivistar (92%), að vernda og auka útbreiðslu birkiskóga (90%) og að stunda skógræktarrannsóknir (88%). Ræktun nýrra skógarsvæða telja 85% mikilvæga, fræðsluhlutverk Skógræktar ríkisins 85%, bindingu kolefnis í skógum 84% og 74% telja skógrækt mikilvæga til aukningar líffræðilegrar fjölbreytni. Tæpur helmingur (48%) landsmanna telur mikilvægt að beina kröftum skógræktar í þá átt að byggja upp sjálfbæra timburauðlind. Talsverður meirihluti (68%) álítur að skógrækt verði mikilvæg búgrein fyrir bændur landsins í framtíðinni.

Í ljós kom að 78% Íslendinga hafa heimsótt skóg a.m.k. einu sinni á undanförnum 12 mánuðum, flestir til að njóta útivistar. Flestir þeirra heimsóttu skóga nokkuð oft, eða að meðaltali 15 sinnum yfir árið. Nefndu flestir skjól/veðursæld eða fallegt umhverfi/náttúrufegurð sem ástæður fyrir því að þeir nýttu skóga til útivistar.

Spurt var hvort fólk teldi skógrækt ógna ýmsum þáttum í umhverfinu. Töldu fæstir nokkra ógn stafa af skógrækt. Aðeins 24% töldu skógrækt vera ógnun við landslag og þaðan af færri töldu að skógrækt ógnaði fornleifum (15%), gróðri (13%), sjaldgæfum tegundum (10%), landbúnaði (6%) eða fuglum almennt (3%). 

Spurt var hver væri uppáhaldstrjátegund viðkomandi. Þarf ekki að koma á óvart að 48% nefndu birki. Í næstu sætum komu síðan greni (14%), ösp (10%) og reyniviður (8%).

Aðspurðir um muninn á kjarri og skógi töldu flestir að tala mætti um skóg þegar trén væru komin nokkuð upp fyrir mannhæð. Meðaltal viðmiðunarhæðarinnar var 2,26 metrar.

Spurt var um afstöðu fólks til barrtrjáa á Þingvöllum og skiptist þjóðin í þrjá nokkurn veginn jafnstóra hópa og einn mun minni: 35% höfðu ekki skoðun á málinu, 33% töldu að þyrma ætti þeim barrtrjám sem þegar væru á Þingvöllum en að ekki bæri að gróðursetja fleiri og 28% töldu að barrtré mættu vera á Þingvöllum til frambúðar. Aðeins 4% svarenda taldi að útrýma ætti barrtrjám á Þingvöllum.

Nánari upplýsingar veita: 

Hrefna Jóhannesdóttir (hrefna@skogur.is s. 460-4477 / 898-7325)

Sherry Curl (sherry@skogur.is s. 471-2100)

Karl S. Gunnarsson (kalli@skogur.is s. 515-4505 / 847-3368)