Ungur greni- og birkiskógur í Svíþjóð. Í ljós kemur í rannsókninni að rótarkerfi þessara tegunda bre…
Ungur greni- og birkiskógur í Svíþjóð. Í ljós kemur í rannsókninni að rótarkerfi þessara tegunda bregðast með sambærilegum hætti við hlýnandi loftslagi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Áhrif loftslagsbreytinga á fínrætur og örverusamfélög á rótum birki- og greniskóga eru viðfangsefni í doktorsverkefni sem tekið verður til varnar við háskólann í Tartu Eistlandi 16. júní.

Doktorsneminn heitir Kaarin Parts og rannsóknir hennar tengjast að hluta til inn í ForHot-verkefnið sem Íslendingar veita forystu og snýst einmitt um rannsóknir á viðbrögðum skóga við auknum hita. Í rannsókn Kaarin er sýnt fram á hvernig birki og greni bregst við umhverfisbreytingum með virkri aðlögun á rótarmyndun og lífmassa samhliða breytingum á tegundasamsetningu örvera á rótum. Allar þessar breytingar reynast vera í samspili. Í verkefninu er dregin sú áætlun að þau viðbrögð sem sýnt er fram á endurspegli almenn ferli í loftslagsaðlögun, í það minnsta fyrir þessar tvær trjátegundir sem skoðaðar voru.

Fylgjast má með doktorsvörninni á Teams-fjarfundakerfinu en vörnin hefst kl. 7.15 að íslenskum tíma, klukkan 10.15 að eistneskum tíma.

Leiðbeinendur Kaarin við doktorsverkefnið voru Ivika Ostonen-Märtin, dósent við vistfræði- og jarðvísindastofnun háskólans í Tartu, og Krista Lõhmus, prófessor emerítus við sömu stofnun. Andmælandi verður doktor Jussi Heinonsalo sem starfar við Helsinki-háskóla í Finnlandi og finnsku veðurstofuna.

Háskólinn í Tartu í Eistlandi er fornfræg stofnun sem rekur sögu sína aftur á sautjándu öld. Um 14.000 nemendur stunda nám við skólann og eru líf- og náttúruvísindi veigamiklar greinar við stofnunina.

Texti: Pétur Halldórsson