Við fornleifarannsóknir að Stóruborg undir Eyjafjöllum hafa komið fram vel varðveittar viðarleifar, en uppgröftur þar fór fram á árunum 1978 til 1990. Gerðar hafa verið ýmsar rannsóknir á þessum leifum á síðustu misserum að tilstuðlan Fornleifastofnunar Íslands í samvinnu við Rannsóknastöð skógræktar að Mógilsá, skv. upplýsingum Ólafs Eggertssonar en hann sá um viðar- og árhringagreiningar við þessar rannsóknir.

Á Mógilsá hefur m.a. farið fram rannsókn á því hvaða viðartegundir hér er um að ræða. Komið hefur í ljós að lerki er sú viðartegund sem varðveitist best þeirra viðartegunda sem finnast við rannsóknir hér á landi.

Einnig kom í ljós við viðargreiningarnar að mikið var um vel varðveittar leifar af eik og ákveðið var að kanna á Mógilsá hvort hægt væri að fá fram svonefndan árhringaaldur á þessum viðarleifum. Voru sneiðar sagaðar úr nokkrum viðarsýnum frá Stóruborg og árhringir þeirra mældir með mikilli nákvæmni og breiddir þeirra bornar saman við árhringatímatalsgögn frá Evrópu.

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu, skv. upplýsingum Ólafs, að eitt viðarsýnið, af tunnuloki, var upprunnið frá Norður-Póllandi og eikartréð sem notað var í tunnuna var fellt í skóginum nálægt Gdansk á tímabilinu 1421 til 1431, eða á tíma Hansakaupmanna við Eystrasalt.

"Niðurstöður sýna að þessar nýju rannsóknaraðferðir hafa mikið notagildi hér á landi. Erlendis hafa þær verið stundaðar af krafti síðustu 20 árin, m.a. má nefna að fleiri víkingaskip hafa verið aldursgreind með árhringaaldursfræðum sem og timburhús, t.d. er elsta timburhús á Norðurlöndum byggt úr trjám felldum veturinn 1287-88," segir Ólafur.


Fréttin birtist í Morgunblaðinu 9/11/2001