Flett timbur og kurl úr sunnlenskum skógum
Flett timbur og kurl úr sunnlenskum skógum

Skógarnir orðnir að auðlind sem skapar störf og margt fleira

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, skrifaði grein í Dagskrána, fréttablað Suðurlands, um miðjan desember þar sem hann fór yfir grisjun og viðarvinnslu nýliðins árs á starfsvæði sínu en fjallaði líka um aðrar nytjar skóganna og framtíð skógræktar. Fréttin er á þessa leið:

Starfsemi Skógræktar ríkisins á Suðurlandi á sér nokkuð langa sögu. Lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands voru sett árið 1907 og var Einar E. Sæmundsen ráðinn skógarvörður á Suðurlandi árið 1910. Fyrstu áratugina snerist starfið að mestu um friðun birkiskóga og endurheimt þeirra, en samhliða því voru gerðar tilraunir með ræktun annarra trjátegunda. Upp úr miðri 20. öld jókst gróðursetning töluvert og voru þá gróðursettir trjáreitir barrtrjáa víða um Suðurland bæði af Skógrækt ríkisins og skógræktarfélögum. Nú eru þessir skógar margir hverjir orðnir að verðmætri auðlind sem skapar störf við grisjun og viðarvinnslu, bindur kolefni, verndar jarðveg og miðlar vatni, myndar vistkerfi fyrir nýjar fuglategundir og skapar skjól.

Grisjun skóga

Grisjun skóga felur í sér að valin eru tré til ásetnings, þ.e. tré með tvo eða fleiri stofna, skakka boli eða grófar greinar eru fjarlægð og bein og vel formuð tré í stærri kantinum skilin eftir. Er þar verið að hugsa til framtíðarviðarnytja skóganna. Oft á tíðum er fjöldi trjáa það mikill að þau eru í samkeppni um ljós, vatn og næringu og því nauðsynlegt að fækka trjánum svo eftirstandandi tré vaxi hraðar. Algengur fjöldi í gömlum trjáreitum fyrir grisjun er 3.000-4.000 tré/ha og er þeim oftast fækkað niður í 1.000-1.500 tré í fyrstu grisjun. Í annarri grisjun er trjánum fækkað enn meira, t.d. niður í 600-800 tré/ha, en þetta er misjafnt milli trjátegunda. Hafa skógarnir aðallega verið grisjaðir með keðjusögum eða stærri skógarhöggsvélum. Er viðnum ekið út úr skóginum með sérstökum skógarvögnum með krana sem dregnir eru af dráttarvélum. Því þarf að gera brautir um skógana. Þótt hundruð hektara hafi verið grisjuð í sunnlenskum skógum á undanförnum árum er það aðeins brot af þeirri grisjun sem vinna þarf að í skógum sunnlenskra bænda á næstu árum og mun sú aukning verða innan næstu 10-15 ára.

Viðarvinnsla

Grisjunarviðurinn sem til fellur er nytjaður á margvíslegan hátt. Helstu viðarafurðir eru: kurl fyrir stóriðju, t.d. sem kolefnisgjafi í framleiðslu kísiljárns hjá Elkem, kurl í beð og gönguleiðir, arinviður, efni í fiskihjalla, timburklæðningar bæði innan húss og utan, stikur og staurar ýmiss konar, spænir í undirburð fyrir dýr. Má segja að allur viður sem til fellur í skóginum utan greinar sem skildar eru eftir sé nýttur á einhvern hátt. Hefur magn viðar sem fellur til af grisjun stóraukist á síðustu árum hér á landi. Á Suðurlandi einu er nú fellt vel á annað þúsund rúmmetra viðar ár hvert og á landsvísu 4-5 þúsund m3. Er í dag orðið nokkuð algengt að sjá flutningabíla hlaðna trjábolum aka um vegi landsins. Stöðug aukning hafur verið á flettingu á borðviði á síðustu árum. Eru nú til á Suðurlandi a.m.k. þrjár sagir til að fletta eða saga niður trjáboli og fer vinnslan fram bæði í starfstöðvum Skógræktar ríkisins og hjá Skógræktarfélagi Árnesinga. Niðurstaða rannsóknarverkefnis þar sem skoðuð voru viðargæði íslensks viðar til nota í burðarvirki húsa benti til að innlendi viðurinn uppfyllti gæðakröfur sem gerðar eru til slíks viðar.

Aðrar nytjar skóganna

Skógar eru ríkir af sveppum, berjum og ýmsum nytjajurtum sem Íslendingar hafa lengst af ekki verið duglegir að nýta. Þekking á hvernig hægt er að nýta þessar afurðir skógarins er þó óðum að aukast. Birkitré hafa lengi verið nytjuð á ýmsan hátt og á síðustu árum hefur safi birkisins orðið að verðmæti. Er safinn nýttur bæði sem heilsudrykkur og til gerðar áfengra drykkja. Birkisafa má tappa af trjám snemma vors áður en birkið laufgast og má ná 10-15 lítrum safa úr hverju tré. Í vor fór í gang verkefni á Tumastöðum sem unnið var í samstafi við Foss distillery og snerist um að kanna hversu mikið magn mætti vinna af safa úr birkitrjám og hvaða áhrif slík aftöppun hefði á trén. Verður verkefninu haldið áfram næstu þrjú vorin og ætti þá að sjást hversu vel birkitrén þola aftöppun. Ljóst er að margvísleg önnur verðmæti en viðarnytjar eru af skógum en það er býsna erfitt að sjá fram í tímann hverjar þær nytjar kunna að verða. Varla er þörf á að minnast á jólatré, köngla og jólagreinar sem nóg ætti að vera af í íslenskum skógum, til að sinna innlendum markaði. Það eru þó enn flutt inn bæði jólatré og jólagreinar í miklu magni og tekst vonandi að draga verulega úr þeim innflutningi á næstu árum, enda margfalt hagkvæmara fyrir íslenska þjóð að rækta jólatrén hér á landi.

Framtíð skógræktar

Skógar og timbur eru þverrandi auðlind í heiminum. Hér á landi hefur þó tekist á síðustu öld að snúa við þeirri miklu skógar- og jarðvegseyðingu sem orðin var. Er talið að flatarmál kjarrs og birkiskóga hafi verið komið undir 1%. Í dag er flatarmál birkiskóga orðið um 1,5% af flatarmáli landsins og eru birkiskógar víða að breiðast út vegna hagstæðs veðurfars og minnkandi beitar. Ræktaðir skógar eru nú rétt tæplega 0,4% af flatarmáli landsins eða um 39.000 ha. Komið er að grisjun í hluta þessara skóga og má búast við stóraukningu innan fárra ára. Dregið hefur heldur úr gróðursetningu síðustu árin og er árlegur fjöldi gróðursettra trjáplantna nú um þrjár milljónir. Nú þegar eru sprottin upp fyrirtæki og einstaklingar sem sérhæfa sig í grisjun skóga og mun vinnsla innlends timburs eflast á næstu árum. Framtíð skógræktar hér á landi er björt og fjölbreyttum störfum við skógrækt mun fjölga á næstu árum.

Texti: Hreinn Óskarsson, skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi
Myndir: Pétur Halldórsson