Forsíðufrétt hjá Fréttablaðinu

Timburflutningabílar Skógræktarinnar vekja athygli á vegum landsins þessa dagana. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag, 16. maí, er mynd af einum bílnum þar sem verið er að stafla á hann viði úr Hallormsstaðaskógi. Viður er afhentur Elkem vor og haust og kringum áramótin. Frétt Fréttablaðsins er á þessa leið:

Skógrækt ríkisins selur lerki:

Sendir Elkem við í tonnatali

„Við erum að senda samtals 500-550 rúmmetra af lerki frá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað til Elkem á Grundartanga, á 12-14 bílum. Þar er það kurlað niður. Svo fara tveir bílar að auki með tré frá bændum á Fljótsdalshéraði í fyrsta skipti,“ segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað. Þór segir það fyrst og fremst kolefnið úr viðnum sem Elkem sækist eftir. Fyrirtækið kaupir einnig tré úr Eyjafirði, Borgarfirði og af Suðurlandi. „Þetta er auðvitað bara brot af því sem Elkem er að nota en við gerðum samning við fyrirtækið og reynum að skaffa því eins mikið og við getum.“ Þór segir söluna hjálpa til við að fjármagna kostnaðinn við nauðsynlega grisjun skógarins og því mjög jákvæða enda sé ekki um smíðavið að ræða.