Nýtt tölublað komið út

Í nýútkomnu tölublaði tímaritsins Við skógareigendur er spáð fyrir um viðarmagn í bændaskógrækt á Héraði, fjallað um skógarbeit, tónlist skógarins, skógræktarmenn í æfingabúðum í keðjusagarútskurði og fleira og fleira.

Skógfræðingarnir Lárus Heiðarsson, Benjamín Örn Davíðsson og Arnór Snorrason skrifa grein í blaðið sem nefnist Viðarmagnsspá fyrir bændaskógrækt á Fljótsdalshéraði. Spáin er unnin fyrir starfshóp um stofnun afurðastöðvar á Héraði og samkvæmt spánni er gert ráð fyrir að mögulegt sé að grisja 24.300 m3 á næsta tíu ára tímabili. Tölurnar í greininni gefa líka ákveðna hugmynd um það hráefni sem nýtanlegt er nú og hvernig skógarnir muni þróast næstu 30 ár. Mögulegt grisjunarmagn gæti fjórfaldast þegar kemur fram á fjórða og fimmta áratuginn en í greininni er tekið fram að skekkjumörkin í spánni séu stór. Kortleggja þurfi skógarreitina á Héraði upp á nýtt svo gera megi nákvæmari spár um viðarmagn.

Í blaðinu fjallar Guðríður Baldvinsdóttir, skógfræðingur og skógarbóndi í Lóni í Kelduhverfi, um skógarbeit. Guðríður stundar nú meistaranám við Landbúnaðarháskóla Íslands og rannsakar skógarbeit. Hún spyr í grein sinni hvort þörf sé á algjörri friðun skógarreita eða hvort hægt sé að finna jafnvægi milli friðunar og beitar. Mikil þörf sé á rannsóknum þar sem skoðaður sé mismikill beitarþungi í stað þess að líta eingöngu á annað hvort beit eða friðun. Sérstaklega þurfi að rannska létta beit í skógi. Guðríður fer svo yfir í greininni hvað hún ætlar að rannsaka í meistaraverkefni sínu. Ungur lerkiskógur verður beittur og ýmis áhrif beitarinnar könnuð. Alþekkt sé að skjól auki uppskeru en geti einnig haft jákvæð áhrif á búsmalann. Með beitarskógrækt skapist tækifæri til að létta beit af viðkvæmari svæðum.

Sesselja Guðmundsdóttir, kennari í Ártúnsskóla fjallar í blaðinu um verkefnið Tónlist skógarins sem unnið var í skólanum vorið 2013 til að þróa samþætt, þverfagleg verkefni í skógartengdu útinámi með áherslu á sköpun og tónlist. Blaðið ræðir við hjónin Katrínu Ásgrímsdóttur og Gísla Guðmundsdóttur hjá gróðrarstöðinni Sólskógum og þar fer Katrín yfir ýmis atriði sem hún telur að bæta megi í útboðum fyrir landshlutaverkefnin í skógrækt og aðra opinbera ræktendur. Pistlar eru í blaðinu frá formönnum nokkurra skógarbændafélaga, Sigríður Hjartar í Múlakoti ræðir um fjölbreytni í skógarjöðrum og Jóhanna Jóhannesdóttir segir reynslusögu af árangursríku landgræðslu- og skógræktarstarfi á Mörk á landi. Þá er fjallað um nýjungar í nýtingu íslenska birkisins og Björvin Eggertsson hjá LbhÍ segir frá ferð íslenskra skógræktarmanna  til Eistlands þar sem þeir tóku m.a. þátt í æfingabúðum í keðjusagarútskurði. Loks fjallar Else Møller um stöðuna í tilraunaverkefninu hjá LSE um jólatrjáaræktun á ökrum.

Texti: Pétur Halldórsson