Skógarbóndi vill auka hlut innlendra jólatrjáa

Páll Ingvarsson, skógarbóndi á Reykhúsum í Eyjafjarðarsveit, segir framtíðina vera að íslenskir bændur sjái um ræktun þeirra jólatrjáa sem seld eru hérlendis. Rætt var við hann og Ingólf Jóhannsson hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga í fréttum Sjónvarpsins.

Í skógi þeirra Páls og Önnu Guðmunds­dóttur í Reykhúsum er skilti sem vísar á uppvaxandi jólatré og áletrunin er „Jólatré framtíðar“. Þau hjónin hafa fikrað sig áfram með jólatrjáarækt undanfarin ár og eru nú farin að uppskera. Í frétt Sjónvarpsins kom fram að einungis ríflega tíu þúsund tré séu íslensk af þeim lifandi jólatrjám sem seld eru hélendis. Bróðurparturinn er því innfluttur. Páll segir: „Við eigum bara að sjá um þetta,“ og á þar við skógarbændur og aðra skógræktendur.

Einnig er rætt við Ingólf Jóhannsson, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Eyfirðinga, sem var að fella rauðgreni­jólatré þegar sjónvarpsmenn bar að garði. Ingólfur dásamar tíðarfarið sem hefur verið einstaklega gott til að sækja jólatré í skóginn þetta árið. Því fylgi þó sá ókostur að aukin hætta sé á því að trén þorni.

Texti: Pétur Halldórsson