Skipulagsfulltrúi Skógræktarinnar gekk á skíðum til vinnu í morgun

Þegar vetrarveðrin geisa getur verið gott að eiga skíði til að bregða sér á milli húsa. Hallgrímur Indriðason, skipulagsfulltrúi Skógræktar ríkisins, kom á skíðum til vinnu í morgun og Bergsveinn Þórsson hjá Norðurlandsskógum smellti af honum mynd út um gluggann.

Lægð gengur nú yfir landið með norðan hretviðri og snjókomu víða um land. Ófærð er á vegum og skólahald hefur raskast sums staðar. Ekki hefur þó veðrið verið til verulegs ama á Akureyri og þakka sumir það skóginum sem sífellt veitir betra skjól í bænum og hefur nánast útrýmt stórhríðum eins og þær þekktust fyrrum. Nokkurt nýsnævi var þó í bænum í morgun og upplagt að bregða skíðunum undir fætur og arka til vinnu á þeim.

Meðfylgjandi ljóð Gríms Thomsens þótti eiga vel við þetta tilefni. Skáldið minnist á furu og úlf. Enga höfum við úlfana í íslenskum skógum en fura prýðir víða landið og er til mikilla landbóta og hagsbóta. Ljóðið fjallar líka um atburði á norskri grundu. Það er um Arnljót gellini sem Snorri Sturluson segir frá í Heimskringlu. Arnljótur var norrænn stigamaður sem átti kyn á Jamtalandi og Helsingjalandi. Hann hjálpaði Þóroddi, syni Snorra goða, á Jamtlandi. Enginn er Hallgrímur stigamaður en við látum kvæðið flakka engu að síður.

Lausa mjöll á skógi skefur,
skyggnist tunglið yfir hlíð;
eru á ferli úlfur og refur,
örn í furu toppi sefur;
nístir kuldi um næturtíð.

Fer í gegnum skóg á skíðum
sköruglegur halur einn,
skarlats kyrtli sveiptur síðum,
sára gyrður þorni fríðum;
geislinn hans er gambanteinn.

Eftir honum úlfar þjóta
ilbleikir með strengdan kvið;
gríðar stóðið gráa og fljóta
greitt má taka og hart til fóta,
ef að hafa á það við.