Vesturbæjarvíðirinn Eystri-Skógum, tré ársins 2018 hjá Skógræktarfélagi Íslands. Ljósmynd: skog.is
Vesturbæjarvíðirinn Eystri-Skógum, tré ársins 2018 hjá Skógræktarfélagi Íslands. Ljósmynd: skog.is

Skógræktarfélag Íslands hefur tilkynnt að vesturbæjarvíði að Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum verði tré ársins 2018. Útnefning trésins fer fram með formlegum hætti á sunnudag, 2. september.

Með útnefningu á tré ársins vill Skógræktarfélag Íslands, nú í samstarfi við IKEA á Íslandi, beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um allt land í trjá- og skógrækt, eins og segir í frétt á vef félagsins. Einnig er tilgangurinn að benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

Vesturbæjarvíðir (Salix smithiana/Salix x smithiana) barst hingað til lands snemma á 20. öld. Jóhann Pálsson grasafræðingur sagði frá tegundinni í Morgunblaðinu 2. september 2001:

   „Upphafs þessarar plöntu hér á landi er að leita til þess er Jón Eyvindsson kaupmaður flutti inn grænar stofuplöntur frá Þýskalandi á fyrstu tugum 20. aldar. Á þeim árum var alsiða að flytja vörur í fléttuðum tágakörfum og þannig voru þessar blómplöntur fluttar hingað. Algengt var á þessum tíma að í kringum fangelsi erlendis væri plantað mikið af víði sem svo fangar fléttuðu körfur úr til umræddra nota.
   Sonur Jóns sem Ísleifur hét og var þá í kringum fermingu veitti því athygli að það voru komnir grænir sprotar og einhver rót á teinunga í körfu sem hafði blotnað. Hann gróðursetti þetta af rælni í potti og setti síðan út í garð á Stýrimannastíg 9. Ísleifur þessi varð síðar þekktur byggingavörukaupmaður hér í borg. Ég ræddi sjálfur við Ísleif um þessa gróðursetningu svo ég hef upplýsingarnar frá fyrstu hendi.
   Þetta gerðist um 1910, en þá var nánast ekki hægt að fá neitt af trjáplöntum til gróðursetningar hér. Teinungurinn úr körfunni dafnaði vel. Auðvelt reyndist að fjölga þessum víði og var það óspart gert. Varð hann því mikið áberandi í görðum í kringum Stýrimannastíginn, t.d. á Vesturgötu, Ránargötu og víðar.“
 

Nokkuð virðist vera á reiki um af hvaða meiði tegundin sé. Jóhann Pálsson segir í nefndri Morgunblaðsgrein að hún beri einkenni selju, gráselju og körfuvíðis og mögulega sé eitthvað þar til viðbótar.

Á bandaríska vefnum Plants for a Future er talað um að Salix x smithiana sé víðiblendingur af óræðum uppruna, mögulega blendingur selju (S. caprea) og körfuvíðis (S. viminalis). Fleiri heimildir taka undir þá tilgátu en aðrar tala um blending gráselju (S. cinerea) og körfuvíðis. Til dæmis er Salix x smithiana talinn vera slíkur blendingur á vefatlas um breska og írska flóru. Á sama atlas er blendingur selju og körfuvíðis kallaður Salix x sericans . Þar er einmitt líka að finna upplýsingar um blending allra þessara þriggja tegunda, selju, gráselju og körfuvíðis, svo ekki er málið einfalt. Jafnframt hefur verið talið að vesturbæjarvíðir geti einfaldlega verið afbrigði eða klónn körfuvíðis.

Hinn dularfulli vesturbæjarvíðir virðist a.m.k. erfa góða kosti, hverjir sem foreldrarnir eru. Algengt mun vera að finna blendinga af þessum toga á þeim slóðum á meginlandi Evrópu þar sem meintir foreldrar vaxa. Sums staðar vaxa einungis karl- eða kvenplöntur saman á sama stað og virðast því geta breiðst út  með rótarskotum án æxlunar.

Hvað sem öllum uppruna líður er þó víst að þetta er í fyrsta sinn sem vesturbæjarvíðir er útnefndur tré ársins hjá Skógræktarfélagi Íslands. Athöfnin hefst við þetta fallega tré að Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum klukkan 14 á sunnudag og eru allir velkomnir. Dagskráin verður sem hér segir:

Setning: Sverrir Magnússon

Ávarp og afhending viðurkenninga: Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélag Íslands

Ávarp verðlaunahafa: Margrét Bárðardóttir

Léttar veitingar frá Skógakaffi, trjáföðmun og mælingar á Tré ársins

Hljómsveit Valborgar Ólafsdóttur flytur frumsamin lög. Hana skipa Valborg Ólafsdóttir, söngur og gítar, Orri Guðmundsson á trommum, Baldvin Freyr Þorsteinsson á gítar og Árni Guðjónsson á bassa og hljómborð.

Að athöfn lokinni verður boðið upp á skógargöngu um Völvuskóg undir leiðsögn staðkunnugra.

Á Ytri-Skógum var tvíbýli og voru bæirnir kallaðir Austurbær og Vesturbær. Vitað er að bræðurnir Kjartan og Bárður Guðmundssynir úr Austurbænum gróðursettu þetta tré árið 1948, að því er talið er, eða fyrir sléttum sjötíu árum, á sumarhúsalóð sem þeir héldu eftir er jörðin var gefin undir Héraðsskólann. Fyrir hönd afmælisbarnsins tekur dóttir Bárðar, Margrét Bárðardóttir, við viðurkenningarskjali við Eystra-Bæjargil og skilti því til staðfestingar að tréð hafi verið valið tré ársins 2018.

Texti: Pétur Halldórsson

 

 

 

 

Um vesturbæjarvíði á vefnum