Gyða S. Björnsdóttir, mastersnemi í umhverfis- og auðlindafræðum, hefur lokið verkefni sínu Einkenni grenndarskóga og verðmæti þeirra fyrir skólastarf, sem við sögðum frá í ágúst. Gyða safnaði saman og flokkaði upplýsingar úr nytjaáætlunum grenndarskóganna sem Jón H. Bjarnason, skógfræðingur, vann á síðasta ári.

Gyða tók m.a. saman upplýsingar varðandi fjarlægð einstakra grenndarskóga frá skólanum, skráði ræktunarsögu, helstu einkenni svæðanna og fjölda einstakra trjátenunda og fjölbreytileika. Hún skráði verndarsvæði, nytjar og verndun og aðstöðu sem byggð hefur verið upp og vakti athygli á því sem betur mætti fara. Hún vakti sérstaka athygli á notkun grenndarskóganna m.t.t. sjálfbærni í skólastarfi og benti á hvers virði skógarnir eru fyrir umhverfisuppeldi skólabarna.

Þar sem Gyða hefur reynslu af fræðslu fyrir skólabörn frá starfi sínu sem fræðslufulltrúi Sorpu benti hún í verkefninu á leiðir til að gera kortagrunna og nytjaáætlanirnar fyrir grenndarskógana hagnýtari fyrir skólastarf, m.a. með því að vefgera kortin með nákvæmum upplýsingum um einstaka náttúruþætti, s.s. trjátegundir, fugla, skordýr og einkenni einstakra svæða í grenndarskóginum.

Það leikur ekki vafi á því að með þessari vinnu Gyðu opnast alveg nýjir möguleikar á áframhaldandi vinnu með nytjaáætlanir fyrir grenndarskóga.

Texi: Ólafur Oddsson