Laugardaginn 14. desember, 2002 - Aðsendar greinar - Morgunblaðið


"Íslensk jólatré eru umhverfisvænni en innflutt lifandi tré eða gervitré."

JÓLATRÉÐ er ómissandi hluti jólahaldsins. Talið er að sá siður að setja upp jólatré hafi borist til landsins með dönskum kaupmönnum undir lok 18. aldar. Á Íslandi uxu ekki sígræn tré og því þurfti að flytja þau inn frá Danmörku. Þau voru hins vegar ekki aðgengileg almenningi á þeim tíma. Í trjáleysinu varð því sá siður algengur að fólk útbjó heimagerð jólatré. Yfirleitt voru þau gerð úr tréstoð með greinum sem síðan voru vafðar með sígrænu efni úr náttúrunni eins og sortulyngi, krækilyngi og eini. Þessi tré voru skreytt og á þau sett kertaljós. Þessi tré voru útbreidd allt fram yfir miðja síðustu öld.

Um miðja öldina hófst ræktun á jólatrjám hérlendis. Upphaf hennar má miða við stóra gróðursetningu á rauðgreni árið 1958 á Hallormsstað. Fóru íslensk jólatré að koma á markað að ráði um 1970. Íslensk jólatré eru nú framleidd um allt land. Lætur nærri að fyrir jólin 2002 verði felld um 10.000 tré, mest í Haukadal, Skorradal, Brynjudal og á Hallormsstað, en einnig á fjölmörgum öðrum svæðum.

Margar tegundir sígrænna trjáa henta sem jólatré. Mest aukning hefur verið í sölu stafafuru undanfarin ár. Stafafura er jólatré sem er dökkgrænt og ilmar sérstaklega vel. Hún fellir ekki barrið og stendur þannig fersk yfir hátíðirnar. Stafafuran er frekar grófgerð og fyrir vikið er gott að skreyta hana. Minnir hún þannig að einhverju leyti á heimagerðu jólatrén sem notuð voru hér á landi fram undir miðja síðustu öld.

Auk stafafuru eru rauðgreni, blágreni, sitkagreni og fjallaþinur höggvin sem jólatré. Rauðgreni er hið hefðbundna jólatré, þétt og ilmandi, en hefur þann ókost að tapa nálunum, sér í lagi ef það er ekki vökvað. Blágrenið og sitkagrenið hafa á síðustu árum í auknum mæli verið nýtt sem jólatré hér á landi. Þau halda nálum betur en rauðgrenið. Fjallaþinurinn er sjaldgæfasta jólatréð.

Undanfarin ár hefur fólki víða verið boðið upp á að koma í skógana og velja þar sitt eigið jólatré. Þetta hefur notið sívaxandi vinsælda, enda geta fjölskyldur þannig komist úr jólastressinu út í friðsældina í skóginum. Þessi viðburður er orðinn fastur liður í jólaundirbúningi á mörgum heimilum.

Það er ekki sama hvernig tré eru meðhöndluð sem jólatré, enda eru þau lifandi. Gilda því svipuð lögmál um þau og afskorin blóm. Nýhöggvið jólatré þarf að standa á köldum stað t.d. utandyra eða í kaldri geymslu þangað til það er tekið inn í stofu. Upplagt er að láta það standa í vatnsfötu úti á svölum. Þegar tréð er skreytt í stofunni er gott að saga þunna sneið neðan af stofninum og stinga því í góðan vatnsfót. Fyrsta vatnsáfyllingin má gjarnan vera með heitu vatni. Þess verður að gæta að aldrei þorni í fætinum meðan tréð stendur í stofunni. Ef þessum reglum er fylgt stendur tréð ferskt og ilmandi yfir hátíðirnar.

Það skiptir máli hvernig tré fólk velur um jólin. Íslensk jólatré eru umhverfisvænni en innflutt lifandi tré eða gervitré. Við ræktun íslenskra jólatrjáa er ekkert notað af mengandi efnum. Við ræktun í Danmörku, þaðan sem innfluttu trén koma, er notað mjög mikið af illgresis- og skordýraeitri sem ekki þarf hér. Við þetta bætist að eldsneytisnotkun er meiri þegar trén eru flutt frá útlöndum. Til dæmis má nefna að gervijólatré eru flest flutt yfir hálfan hnöttinn frá Asíu hingað til lands. Lifandi tré eru því umhverfisvænni en gervitré, auk þess að þau má endurvinna.

Íslensku trén eru grisjuð úr skógunum. Þannig er ekki verið að ganga á skóglendi landsins við framleiðslu þeirra, heldur þvert á móti, verið að auka við þau með auknum tekjum til skógræktarstarfseminnar. Með því að velja íslenskt jólatré í ár styður þú skógrækt á Íslandi. Fyrir hvert selt íslenskt jólatré er hægt að gróðursetja 30-40 ný tré.

Eftir Hrein Óskarsson og Jón Geir Pétursson

Hreinn er skógarvörður á Suðurlandi og Jón Geir skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands.