Alþjóðlega ráðstefnan Larix 2012: Larch in a warm climate var haldin á Hallormsstað dagana 11.-14. september sl. Þetta var tíunda ráðstefna lerki kynbóta og erfðalindahóps alþjóðasamtaka skógrannsóknastofnana (IUFRO), en Íslendingar hafa tekið þátt í ráðstefnum þess hóps síðan 1992. Að þessu sinni var komið að Skógrækt ríkisins að vera gestgjafi. Ráðstefnuna sóttu alls 37 þátttakendur frá 9 löndum; Frakklandi, Rússlandi, Japan, Svíþjóð, Austurríki, Hollandi, Noregi og Færeyjum auk Íslands.

Lerkitegundir eru meðal mikilvægustu skógartrjáa heims, einkum vegna hinna víðáttumiklu lerkiskóga Síberíu. Auk þess er lerki mikið notað í skógrækt í Japan og löndum Vesturevrópu, ekki síst í Frakklandi. Hvergi er lerki þó jafnhátt hlutfall af gróðursetningu og á Íslandi, þar sem það hefur numið 15-30% af árlegri gróðursetningu til skógræktar undanfarin rúm 20 ár.

Á ráðstefnunni voru fluttir fyrirlestrar um kynbætur lerkis, einkum árangurinn af notkun kynblendinga á borð við sifjalerki. Einnig um vaxtarhraða, vaxtarlag og viðargæði. Þá voru fyrirlestrar um vistfræði lerkiskóga, sveppi, smádýr og kolefnisbindingu. Undir þema ráðstefnunnar; lerki í hlýju loftslagi, var m.a. fjallað um áhrif þurrks á vöxt lerkis, aukinn vöxt í mikilli hæð til fjalla og þá óheppilegu þróun að veturinn hlýni meira en sumarið hér á landi. Á næstunni verða fyrirlestrar ráðstefnunnar aðgengilegir á vefsvæði Larix 2012.

Veðrið mánudaginn 10. sept. tafði fyrir komu ráðstefnugesta og snjóalög settu enn strik í reikninginn á ferð um Norðurland föstudaginn 14. sept. Því þurfti að breyta dagskránni nokkuð og fyrir vikið varð „plan b“ óopinber undirtitill ráðstefnunnar. Ekki var þó annað að sjá en að ráðstefnugestir hafi notið heimsóknarinnar til Íslands og þess að sjá hina miklu uppvaxandi lerkiskóga á Héraði.  


Larix2012-(3)

Larix2012-(4)

Larix2012-(1)

Myndir og texti: Þröstur Eysteinsson