Helena Marta Stefánsdóttir, sérfræðingur og skógræktarráðgjafi, tekur á móti fjölskyldu í bás Skógræ…
Helena Marta Stefánsdóttir, sérfræðingur og skógræktarráðgjafi, tekur á móti fjölskyldu í bás Skógræktarinnar og börnin fá skógarbingó. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Stöðugur straumur fólks var að bás Skógræktarinnar á stórsýningunni Íslenskum landbúnaði 2022 sem haldin var í Laugardalshöll í Reykjavík 14.-16. október. Básinn vakti almenna hrifningu og var mikill áhugi að kaupa tré og aðra „leikmuni“ í básnum.

Bás Skógræktarinnar var settur upp að hætti skógræktarfólks sem eins konar skógarlundur þar sem fram fór skógarganga með ketilkaffi og náðist þar upp skemmtileg skógarstemmning. Í boði var brjóstsykur með greni, lerki og birkibragði sem vakti mikla lukku og fjöldi fólks tók sér einblöðunga með upplýsingum um þjóðskóga, kolefnismál, fyrstu skrefin í skógrækt og nýja landsáætlun í skógrækt og landgræðslu, Land og líf. Skógarbingó fyrir börnin vakti líka áhuga og margir þáðu birkifræ í umslag með leiðbeiningum um söfnun og sáningu. Mikið var um ýmiss konar fyrirspurnir og gestir í básnum voru almennt mjög áhugasamir um ýmsa þætti skógræktar og jákvæðar umræður sköpuðust. Stöðugur straumur fólks var í básinn og engar dauðar stundir.

Ketilkaffi er eins konar aðalsmerki skógræktarfólks á ýmiss konar viðburðum og í bás Skógræktarinnar var komið fyrir bálpönnu innan um ilmandi tré. Þótt kaffið hafi vissulega ekki verið eldað með eldi heldur rafmagnshellu sem falin var ofan í bálpönnunni reyndist það sérlega gott og var punkturinn yfir i-ið í skógarstemmningunni sem skapaðist.

Skógræktin þakkar öllum gestum sem stöldruðu við í básnum fyrir komuna og sömuleiðis öllu því starfsfólki sem tók þátt í að undirbúa þátttöku stofnunarinnar í sýningunni, setja upp básinn, standa þar vaktir og ganga frá að sýningu lokinni. Þess má geta að margir gestir sýndu áhuga á að kaupa trén í básnum, eldiviðinn, kolla og borð úr trjábolum og fleiri „leikmuni“. Skemmst er frá því að segja að stór hluti af þessum munum seldist sem segir sína sögu um áhuga Íslendinga á skógum, skógrækt og skógarafurðum.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson