Vel gengur hjá Hekluskógum og í sumar verða gróðursettar um 300.000 birkiplöntur á svæði verkefnisin…
Vel gengur hjá Hekluskógum og í sumar verða gróðursettar um 300.000 birkiplöntur á svæði verkefnisins. Fjölmargir einstaklingar og hópar leggja hönd á plóginn og nú hefur Care-verkefni Landverndar, Græðum Ísland, tekið að sér svæði á söndunum sunnan Þjófafoss. Ljósmynd af vef Hekluskóga.

Gróðursetning í Hekluskógum hefur gengið vel í sumar þrátt fyrir rysjótta tíð. Á vef verkefnisins kemur fram að gróðursett hafi verið í vor og fram á sumar og aftur verði tekið til við gróðursetningu í lok ágústmánaðar. Alls er stefnt að gróðursetningu rúmlega 300 þúsund birkiplantna í ár á athafnasvæði Hekluskóga.

Ýmis samtök, til dæmis samtök vélhjólamanna, vinna mikilvægt starf á Hekluskógasvæðinu ár hvert. Ljósmynd af vef Hekluskóga.Ýmsir hafa lagt hönd á plóginn við gróðursetningu í sumar, íþróttahópar í fjáröflun, verktakar, sjálfboðaliðar og fleiri. Hekluskógar gerðu á síðasta ári samkomulag við Landvernd um  uppgræðslu á söndum sunnan við Þjófafoss sem lið í Care-verkefninu sem á íslensku er kallað Græðum Ísland. Landvernd tekur á móti hópum sem koma og vinna að uppgræðslu og gróðursetningu. Eitt meginmarkmiðið er að breiða út birkiskóga á landinu.

Fleiri hópar starfa með Hekluskógum. Hópar á vegum Green Midgard hafa líka komið í uppgræðsluverkefni á vegum Hekluskóga. Þetta eru nemendahópar frá Bandaríkjunum sem vilja láta gott af sér leiða líkt og hóparnir sem koma á vegum Landverndar. Þá koma Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd einnig árlega til að græða upp og gróðursetja á svæði við Vegghamra í Þjórsárdal. Ferðaklúbburinn 4×4 sem starfað hefur að uppgræðslu í Sölmundarholti í Þjórsárdal gróðursetti um 1.600 birkiplöntur í ár og lagði hópurinn til helming plantnanna sjálfur. Auk þess dreifði hópurinn 1.200 kg af tilbúnum áburði sem Landgræðsla ríkisins lagði til sem styrk. Nokkrir mótorhjólaklúbbar hafa starfað með Hekluskógum undir merkjum Mótorhjólaskóga og hafa þeir ræktað upp stór svæði norðan Hrauneyjavegar og í Vaðöldu á undanförnum árum. Hafa hóparnir undir stjórn Hjartar Jónssonar útvegað töluvert magn áburðar til uppgræðslunnar. Starfsmannafélag Fjölbrautaskóla Suðurlands kom við hjá Hekluskógum í ferð sinni um svæðið og gróðursetti í svæðið austan Þjórsár við Ísakot. Einn árgangur frá grunnskólanum á Hvolsvelli hefur komið síðustu tvö síðustu ár til uppgræðslu- og gróðursetningarstarfa og ætlar skólinn að koma með annan árgang nú í haust.
 

Allt þetta sjálfboðaliðstarf er afar mikilvægur þáttur í starfssemi Hekluskóga. Landeigendur fóru seint af stað með gróðursetningu þetta árið og má þar kenna um kulda og miklum rigningum. Landeigendur hafa þó skilað sínu og eiga sennilega eftir að taka eitthvað af trjáplöntum í haust. Auk alls þess sem hér hefur verið nefnt hafa verktakar unnið að gróðursetningum á Hekluskógasvæðinu og Landgræðslan hefur dreift kjötmjöli á efri hluta svæðisins eins og undanfarin ár.

Margir íþróttahópar hafa komið eins og undanfarin ár og gróðursett í fjáröflunarskyni fyrir keppnis- eða æfingaferðir og annað íþróttastarf. Gróðursetja hóparnir trjáplöntur með aðstoð foreldra auk þess að bera á hverja plöntu. Þeim er greitt fyrir hverja gróðursetta trjáplöntu. Hóparnir voru misstórir og krakkarnir á ýmsum aldri, en fram kemur í fréttinni á vef Hekluskóga að allir hóparnir hafi verið duglegir og skilað góðu verki. Þessir hópar hafa gróðursett um 30 þúsund plöntur í sumar og dreift 2,4 tonnum af tilbúnum áburði. Víða um svæðið má sjá gróskumikla reiti sem slíkir hópar hafa gróðursett á síðustu árum.

Landgræðsla ríkisins hefur að auki dreift kjötmjöli á efri hluta svæðisins nú í ár og síðustu ár með góðum árangri, auk þess að veita styrki til áburðargjafar í gegnum Landbótasjóð.

Eins og síðustu ár hafa landeigendur sem eru með samning við Hekluskóga gróðursett um þriðjung allra plantna. Þátttaka landeigenda jókst nokkuð þegarr að starfsvæðið var stækkað til suðurs. Það nær nú yfir svæðið sunnan við Gunnarsholt allt að þjóðvegi 1 og er hluti Reynifells einnig innan þess.