Rakel Jakobína Jónsdóttir, doktorsnemi og sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar
Rakel Jakobína Jónsdóttir, doktorsnemi og sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar

Rakel Jakobína Jónsdóttir, doktorsnemi og sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, hlaut annan hæsta styrkinn við fyrstu úthlutun úr Doktorsnemasjóði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins tæpar 29 milljónir króna til þriggja ára. Styrkinn hlýtur hún til rannsókna sem tengjast framleiðslu skógarplantna og nýskógrækt, aðlögun að nýjum aðferðum.

Alls bárust átta umsóknir í sjóðinn og voru fjórar þeirra styrktar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tilkynnti um úthlutunina á degi íslenskrar náttúru, 16. september. Markmið sjóðsins er að styrkja rannsóknir á samspili landnýtingar og loftlags. Sjóðurinn veitir styrki til doktorsnema á sviði náttúruvísinda. Styrkveitingar á þessu ári nema tæpum 40 milljónum króna en þar sem verkefnin eru almennt til þriggja ára er heildarupphæð þessarar fyrstu styrkveitingar rúmar 86 milljónir.

Rakel Jakobína Jónsdóttir hlaut styrk upp á tæpar 29 milljónir króna til þriggja ára og er það nánast sama upphæð og úthlutað var til þess sem hæsta styrkinn hlaut að þessu sinni.

Gæði skógarplantna og nýjar aðferðir

Verkefni Rakelar lúta að skógarplöntuframleiðslu og nýskógrækt, þeirri aðlögun sem aukning í skógrækt kallar á. Auka þarf framleiðslu skógarplantna í landinu og því er vélvæðing í framleiðsluferlum ákjósanlegur kostur. Rakel vinnur m.a. að verkefni með tveimur norskum skógarplöntuframleiðendum sem hafa tekið vinnuþjarka eða róbóta í sína þjónustu til þess að auka framleiðslu og hagræða í rekstri. Þess má geta að íslenskir framleiðendur eru nú þegar farnir að huga að breytingum í þá átt. Í íslenskri skógarplöntuframleiðslu verður að horfa sérstaklega til þeirra tegunda sem framleiddar eru hér á landi. Lerki er aðeins lítill hluti af framleiddum plöntum í Skandinavíu og því fáar aðgengilegar heimildir til um framleiðslu þess. Frostþol róta rússalerkis í framleiðslu er eitt af viðfangsefnunum og afleiðingar gróðursetningar rússlerkis með kalnar rætur kannaðar.

Vegna aukningar í skógrækt hefur gróðursetningartími verið að færast í auknum mæli á haustið. Í því sambandi má nefna að í ár er stærsta haustgróðursetning frá upphafi skógræktar í landinu. Með þessari breytingu á gróðursetningarglugganum má ná fram betri nýtingu á verktökum í skógrækt og gróðursetja þannig fleiri plöntur á ári. En hver eru áhrifin af því að gróðursetja á mismunandi tímum árs? Eitt af verkefnum Rakelar er að kanna það og samspil áburðargjafar við gróðursetningartíma. Til þess verða notaðir seinleystir, lífrænir og ólífrænir áburðargjafar auk þeirra hefðbundnu.

Textavinnsla: Pétur Halldórsson