Veggspjald HMS um aðkomu viðbragðsaðila að frístundabyggðum
Veggspjald HMS um aðkomu viðbragðsaðila að frístundabyggðum

Brunavarnasvið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur útbúið veggspjald um aðkomu viðbragðsaðila að frístundabyggðum. Á síðasta ári komu einnig út leiðbeiningar um brunavarnir í frístundabyggð.

Að ýmsu þarf að huga til að eldvarnir í frístundabyggðum séu eins og best verður á kosið. Ekki er síst mikilvægt að tryggja að slökkvibílar, sjúkrabílar, lögreglubílar og önnur slík tæki komist á vettvang ef bruna ber að höndum. Víða er undirlag ófullnægjandi í frístundabyggðum þannig að vegirnir þola ekki þunga bíla, sérstaklega ekki stóra og þunga tankbíla slökkviliða. Þá getur komið fyrir að slík tæki komist ekki að til að slökkva eld, einfaldlega vegna þess að ekki var hugað nógu vel að vegagerð og aðkomuleiðum. Vegir þurfa að þola að 16-18 tonna bílar aki um þá, hvort sem er á sumri eða vetri, í frosti eða þíðu. Á vorin er mikil hætta á því að aurbleyta geri lélega vegi ófæra þungum bílum.

Og ekki er nóg að burðarþol veganna sé nægilegt. Þeir þurfa líka að vera að minnsta kosti þrír metrar á breidd og vel þarf að huga að því að trjágróður vaxi ekki yfir vegi því slíkt getur líka hindrað för stórra tækja. Slökkvibílar geta verið allt að rúmlega fjórir metrar að breidd. Því þarf að klippa og saga trjágróður sem skagar inn á vegi og ætti það að vera liður í reglulegu viðhaldi vega og gatna í frístundabyggðum.

Á nýju veggspjaldi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er tæpt á helstu atriðum sem þarf að hafa í huga til að tryggja gott aðgengi viðbragðsaðila að frístundabyggðum. Nánari upplýsingar er að finna í leiðbeiningum sem stofnunin gaf út á síðasta ári, Brunavarnir í frístundabyggð. Veggspjaldið er gefið út í samvinnu við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Félag slökkviliðsstjóra á Íslandi.


Myndband átaksins „Vertu eldklár“ um gróðurelda.
Texti: Pétur Halldórsson