Fékk styrk til að þróa vefjaræktunaræti fyrir jólatrjáaræktun

Í Morgunblaðinu í dag, 12. maí, er fjallað um vefjaræktun berjaplantna í garðyrkjustöðinni Barra á Egilsstöðum. Fram kemur í greininni að í sumar komi á markað frá Barra vefjaræktaðar jarðarberjaplöntur og runnabláber.

Grein Morgunblaðsins er á þessa leið:

„Við byrjuðum á þessu fyrir tveimur árum en erum að komast á gott skrið, erum enn að læra og reyna að ná góðum tökum á þessu,“ segir Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri Barra á Egilsstöðum, sem er eina garðyrkjustöðin á landinu sem vefjaræktar berjaplöntur og aðrar tegundir. Sala á svona plöntum hófst síðasta sumar en Skúli segir fleiri tegundir verða á boðstólum í sumar, t.d. jarðarberjaplöntur og runnabláber, og í lok sumars er vonast til þess að hlíðaramall komist í almenna sölu.

Hraðvirk aðferð

Með vefjaræktun er á átt við fjölgun plantna með kynlausri æxlun, þar sem hægt að fjölga einstaklingum eins oft og óskað er. Gerist það mun hraðar en með fræjum í hefðbundinni kynæxlun. Fjölgunin fer fram í örverufríu umhverfí og vexti og þroska plantnanna er stýrt með hormónum. Af þeim sökum er hægt að framleiða plönturnar allan ársins hring.

Skúli segir þetta vandasama ræktun og kostnaðarsama. Aðalmálið sé að ná í heppilegar stofnplöntur, sem oft eru einkaleyfisbundnar. Barri er með samninga við MTT í Finnlandi, finnsku landbúnaðar- og matvælarannsóknastofnunina, sem selur þeim stofnplöntur.

„Við reynum að velja berjaplöntur sem henta vel á norðlægum slóðum og eiga að ná góðum þroska í skjólgóðum görðum. Þegar vel gengur þá er þetta mjög hraðvirk fjölgunaraðferð,“ segir Skúli en sem dæmi um fjölgunina má nefna að allt að 400 plöntur geta komið út úr ræktun á 20 plöntum í litlu glasi á sex vikum.. Vandasamast er að koma plöntunni yfir í mold en að sögn Skúla geta þá orðið nokkur afföll.

Það eru ekki aðeins berjaplöntur sem Barri er að þróa sig áfram með í vefjaræktuninni.

Fá styrk til að þróa jólatré

„Við erum að hefja ræktun á íslensku blæöspinni en henni var fjölgað með vefjaræktun um árabil og ekki er ólíklegt að við reynum við fleiri tegundir,“ segir Skúli.

Annars er vefjaræktun enn þá hliðarbúgrein hjá Barra en Skúli segir mikil tækifæri vera með þessari fjölgunaraðferð.

„Johanna Maria Henrikson líffræðingur hefur haft veg og vanda af vefjaræktunarverkefninu hjá okkur og við höfum fengið nokkra styrki til að stíga fyrstu skrefin og afla sérþekkingar. Þá vorum við að fá styrk frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins til að þróa vefjaræktunaræti fyrir trjátegundir sem henta til jólatrjáaræktunar.“

Vefjaræktun er víða stunduð erlendis og fór fram hér á árum áður hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur og síðar hjá Skógrækt ríkisins á Mógilsá. Þuríður Yngvadóttir líffræðingur vann að þessari ræktun á sínum tíma og tók yfir framleiðsluna þar til ræktun var hætt fyrir um sjö árum. Voru tré þá aðallega ræktuð með þessum hætti, einkum blæösp og reyniviður. Þuríður hefur verið Barra til ráðgjafar í þessu en hún starfar núna hjá ORF-Líftækni.

Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is

Spurning hvort nú er hafið nýtt skeið vefjaræktunar á Íslandi. Með þessari aðferð má til dæmis fjöldaframleiða tré af einum einstaklingi sem þykir hafa eftirsóknarverða eiginleika, hvort sem það er vaxtarhraði, útlit eða annað. Taka verður þó fram að ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið.  Plöntur sem fengnar eru upp með vefjarækt verða erfðafræðilega eins og móðurplantan, en endanlegt útlit þeirra ræðst líka mikið af þeim skilyrðum sem þær vaxa við.