Ungur búvísindamaður segir tækifæri í skógrækt og klæða þurfi landið gróðri

Uppgræðsla auðna á hálendi Íslands gæti breytt veðurfari á Íslandi og gert landið vænlegra til búsetu og ræktunar. Þetta sagði Egill Gautason, B.Sc. í búvísindum á lokaráðstefnu verkefnisins Veljum Vopnafjörð í síðustu viku. Egill hvatti til þess að gerðar yrðu grundvallarbreytingar í landnýtingarmálum

Frá þessu er sagt á vef austfirska fréttamiðilsins Austurfréttar. Orðrétt segir:


„Veðrið á Íslandi er ömurlegt og það er manngert,“ sagði Egill. Hann sagði hálendisauðnir draga að sér hafgolu sem yrði til þess að mun vindasamara verði á landinu. Hafgolunni fylgi kuldi og þar með minnki framleiðni beitilands.

Egill sagði að hægt væri að bæta úr með að auka gróðar- og skógarþekju landsins. „Það þarf grundvallarbreytingu í landnýtingarmálum og sóknaráætlun um eflingu gróðurs.“

Erindi Egils fjallaði um framtíð í landbúnaði Vopnafjarðar. Hann sagði að tækifæri væru í matvælaframleiðslu á heimsvísu þar sem umhverfismál, einkum loftlagsmál, ógnuðu henni. Hann lýsti áhyggjum sínum af stöðu sauðfjárræktar í landinu því útlit væri fyrir áframhaldandi verðlækkanir í haust.

Hann sagði tækifæri felast í skógrækt. Hún hefði gengið framar vonum hérlendis. Þá hefur hún verið lögð fram sem ein af aðgerðum Íslands í loftslagsmálum.

„Spurningin er hver eigi að binda kolefnið og hver borgar fyrir það. Það skiptir máli fyrir okkur með okkar landrými. Getum við gert landbúnaðinn samkeppnishæfari og bundið kolefni.“

Egill lýsti áhyggjum sínum af því hve mikið ræktarland væri komið í einkaeigu en eins og fram hefur komið hafa auðjöfrar safnað að sér laxveiðijörðum í Vopnafirði.

„Þróunin víða um heim er að jarðir fara úr eign bænda og heimamanna. Það veldur vandamálum í landbúnaði. Ég hef áhyggjur af því að uppbygging, einkum í skógrækt, sé minna fýsileg á leigujörðum.“