Síðara tölublað málgagns skógareigenda komið út

Ræktun jólatrjáa er áberandi í seinna tölublaði ársins af málgagni Landssamtaka skógareigenda, Við skógareigendur, sem nýlega kom út. Fjallað er um kynbætur á fjallaþin til jólatrjáaræktar og flokkunarkerfi fyrir jólatré en einnig margvísleg önnur skógarmálefni. Til dæmis spyr Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá: Vaxa peningar á trjánum? Þar veltir hann upp ýmsum leiðum sem skógarbændur hafa til að afla tekna af skóginum meðan hann er að vaxa.

Sigríður Hrefna Pálsdóttir á Hjálmsstöðum í Eyjafirði, sem er nemi í skógfræði við Landbúnaðarháskóliann, skrifar skemmtilega grein um hvernig nota má nota spírur og greinar af lerki til að setja upp skjólgirðingar líkt og víða er gert í útlöndum. Hraundís, Guðmundsdóttir, skógfræðingur og frumkvöðull á Rauðsgili í Reykholtsdal, fjallar um ilmkjarnaolíur sem hafðar eru í snyrtivörur, til lækninga og fleiri nota, Valgerður Jónsdóttir Norðurlandsskógum skrifar um gæðamat á gróðursetningum og fer meðal annars yfir algengustu mistökin sem fólk gerir við gróðursetningu trjáplantna.

Er allt að drepast? spyr Bergsveinn Þórsson Norðurlandsskógum. Hann skrifar um það vandasama verk að rækta skóg í frjósömu landi þar sem mikil hætta er á  að trjáplönturnar kafni í samkeppnisgróðri. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að ekki sé ráðlegt að gróðursetja beint í mjög frjósamt land þar sem samkeppnisgróður er mikill. Vænlegast sé að rækta alaskaösp á slíku landi og jarðvinna með TTS-herfi eða eitra með illgresislyfi ef fólk er fyrir eiturnotkun, eins og Bergsveinn orðar það.

Þá skrifar Sighvatur Jón Þórarinsson á Höfða í Dýrafirði um beitarskóg. Í sumar var byrjað að beita kúm á eilsta hluta skógarins í Höfða sem er 17 ára gamall. Skógurinn er ræktaður sem beitarskógur og gróðursett með tveggja metra millibili eða meira og skilin eftir auð svæði inn á milli. Kýrnar afbörkuðu alaskavíði og selju en létu aðrar trjátegundir í friði nema hvað þær bitu lauf af reynivið. Forvitnilegt verður að fylgjast með áframhaldandi beitartilraunum í Höfða á komandi árum. Á jörðinni er um 300 hektara skógræktar- og uppgræðslusvæði sem ætlað er að verða framtíðarbeitiland jarðarinnar.

Björn Bjarndal Jónsson Suðurlandsskógum skrifar síðan í blaðið um verkefnið Sáð til skógar þar sem gerðar verða tilraunir með að sá trjáfræi beint í útjörð til að draga úr kostnaði, ná árangri á stærri svæðum og byggja upp illa farið land með skógi. Reyndar verða tíu mismunandi aðferðir og vonast er til að árangurinn komi í ljós á næstu 3 til 5 árum.

Aftast í blaðinu er fjallað um aðalfund Landssamtaka skógareigenda sem haldinn var í Stykkishólmi í október og á baksíðu er Rakel Jónsdóttir Norðurlandsskógum með skemmtilegar ábendingar um smáforrit eða öpp sem nýst geta skógræktarfólki sem notar snjallsíma. Staðsetningarbúnað símanna má nota til að staðsetja nýgróðursetningar á korti, til eru forrit sem nota má við skipulag ýmissa þátta skógræktar, mælingar og fleira. Fremst í blaðinu eru líka girnilegar uppskriftir fyrir útieldun.

Tímaritið Við skógareigendur kemur út í 1500 eintökum. Það er 24 blaðsíður að þessu sinni. Ritstjórnin hefur verið í höndum Norðlendinga undanfarin tvö ár og hefur Anna Guðmundsdóttir í Reykhúsum Eyjafjarðarsveit verið ritstjóri. Landshlutarnir skiptast á að sjá um blaðið og láta Norðlendingar nú verkefnið af hendi. Skrifstofa Landssamtaka skógareigenda er á Selfossi og framkvæmdastjóri samtakanna er Hrönn Guðmundsdóttir.

Texti: Pétur Halldórsson