Á síðasta ári birtist grein í ritinu Forest Nursery Notes sem nefnist Hot-planting Opens New Outplanting Windows at High Elevations and Latitudes. Þar er fjallað m.a. um þann möguleika að gróðursetja skógarplöntur í ágúst og september, sama sumar og þær eru framleiddar. Í greininni kemur fram að kostirnir við gróðursetningu síðsumars og á haustin er að jarðvegur er tiltölulega hlýr á þessum tíma og oft rakur. Rótavöxtur plantna getur því orðið góður við þær aðstæður. Við þetta sparast einnig vetrargeymsla plantnanna. Þessi gróðursetningartími er hins vegar lítið nýttur, hvorki hér né erlendis, og virðist ákveðin hefð ráða því að plöntur eru gróðursettar á öðrum árstíma.

Víða á vetrarmildum norðlægum svæðum, svo sem í vestanverðri N-Ameríku og Evrópu er það veturinn sem er aðal gróðursetningartíminn. Skógarplöntur eru þá í dvala eða nýlega vaknaðar úr honum, jarðvegur er rakur og sólgeislun það lítil að nýgróðursettar plöntur ráða við álagið. Plöntur eru teknar úr beði eða ílátum að vetri og gróðursettar fljótlega eða geymdar í fáeina mánuði í gróðrarstöðvum eða kæligeymslum. Allir eru vanir þessu kerfi og allt vinnuferlið miðast við það. Á vetrarmildum svæðum hérlendis gæti vetrargróðursetning komið til greina, en sá möguleiki verður ekki ræddur frekar hér.

Á vetrarköldum svæðum, svo sem í Skandinavíu er hins vegar hefð fyrir því að gróðursetja fyrri part sumars, jafnvel fram yfir mitt sumar. Þessi tími er einnig nýttur hér á landi eins og allir þekkja. Þetta fyrirkomulag kallar á langa vetrargeymslu plantna, sem hefur það að markmiði að varðveita þrótt þeirra, verja þær gegn ofþornun og varna rótunum frostskemmdum. Stundum tekst þetta ekki nægilega vel og plöntur skemmast eða missa þróttinn. En oft sleppa plöntur vel frá vetrinum. Jarðvegur er frekar svalur fyrri part sumars, þótt sólgeislun sé mikil. Og vorin og sumrin geta verið þurr hérlendis. Við gróðursetningu eru plöntur jafnframt yfirleitt teknar að mynda ný laufblöð, sprota og rætur og eru viðkvæmar fyrir óhagstæðum ytri skilyrðum. Jarðvegskuldi, þurrkur og mikil sólgeislun geta því reynst plöntunum erfið og stuðlað að miklum afföllum eða hægum vexti. Vinnuframboð er hins vegar nægt á sumrin til gróðursetninga, einkum vegna frítíma fólks frá fastri vinnu og skólagöngu. Sumrin eru líka þægileg til útivinnu vegna hlýinda og langs birtutíma. Þess vegna kjósa flestir að gróðursetja skógarplöntur á sumrin, jafnvel þótt annar tími geti hentað plöntunum jafn vel eða betur.

En hvað með að ala upp og gróðursetja skógarplöntur sama sumarið, eins og höfundar fyrrnefndar greinar eru að velta fyrir sér? Þetta er svolítið stundað hérlendis samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum skógræktarverkefnanna. Hjá Vesturlandsskógum voru 17% nýrra plantna gróðursettar í haust, en annars staðar var þetta hlutfall lægra og sumstaðar ekkert. Hjá Norðurlandsskógum voru reyndar 43% plantnanna gróðursettar að hausti 2007 og 30% 2008, en það voru aðallega plöntur úr seinni sáningu árið áður. Þetta sýnir að haustgróðursetningar eru raunverulegur valkostur.

Forsendur þess að sumarlok og haustið nýtist til gróðursetningar eru að plönturnar séu tilbúnar í tæka tíð, landeigendur og gróðursetjarar séu tilbúir að taka á móti þeim og vilji sé til staðar hjá skipuleggjendum og stjórnendum. Til að gera plöntur klárar síðsumars, þarf að stöðva vöxt flestra tegunda og herða þær tímanlega með myrkvun. Þá eykst frost- og þurrkþol þeirra og þær þola frekar flutning og meðhöndlun. Ómyrkvaðar plöntur geta hins vegar skemmst eða drepist í næturfrostum. Margir plöntuframleiðendur hérlendis hafa reynslu af því að myrkva plöntur og flýta fyrir herðingu þeirra. Aðstaða til þess er víða fyrir hendi, þannig að hvorki aðstaða né reynsla ætti að vera mikil fyrirstaða. Plöntur gróðursettar síðsumars ættu að hafa jafna möguleika á að ná rótfestu og þær sem gróðursettar eru fyrr á sumrin. Á öllum árstímum ætti að forðast að setja plöntur í jarðunnar rásir og flög vegna hættu á frostlyfingu, en setja plöntur á rótfasta staði við hlið þeirra. Þetta er nefnt vegna þess að oft er frostlyfting nefnd sem helsti ókosturinn við haustgróðursetningu.

Það er nefnt í títtnefndri grein að ástæða þess að allar plöntur eru ekki gróðursettar síðsumars og á haustin, er að tími og mannafli er þá ekki nægur til að ljúka gróðursetningunni. Þess vegna er þessu dreift á aðra árstíma. Í ljósi vandamála sem hafa komið upp við vetrargeymslu hérlendis ættu menn að huga betur en gert hefur verið að mögulegri gróðursetningu skógarplanta strax eftir að uppeldi þeirra lýkur. Um sunnanvert landið og víðar er jafnframt það vetrarmilt að vetrargróðursetning gæti komið til greina. Það er verkefni skipuleggjenda skógræktar að byggja upp kerfi sem gerir þetta kleyft. Þannig má jafnvel bæta árangur gróðursetninga og draga úr kostnaði.


Heimild: Thomas D. Landis, Diane Haase, Don Willis, Douglass F. Jacobs 2008. Hot-planting Opens New Outplanting Windows at High Elevations and Latitudes.  Forest Nursery Notes, Winter 2008:19-23.

http://www.rngr.net/Publications/fnn/2008-winter-forest-nursery-notes/2008-forest-nursery-notes-publication-by-article/hot-planting-opens-new-outplanting-windows-at-high-elevations-and-latitudes/view


Úlfur Óskarsson, lektor við LBHÍ