Á alþjóðlegum degi skóga 21. mars verður kynnt ný skýrsla GFEP, alþjóðlegs sérfræðingasamstarfs á sviði skóga, með niðurstöðum um mikilvægi skóga og trjáa fyrir heilsu okkar mannanna. Kynningin er öllum opin í  fjarfundi en skráningar er þörf.

Skógasvið FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, stendur fyrir alþjóðlegum degi skóga á hverju ári og ákveður sérstakt þema hverju sinni. Í ár eru í brennidepli heilbrigðir skógar og heilbrigt fólk. Í tengslum við það verður haldinn fræðslufundur á vefnum þar sem kynntar verða niðurstöður nýrrar skýrslu eða úttektar á samhengi trjáa og skóga við heilsu okkar mannanna. Í skýrslunni er fjallað um leiðir, áhrif, úrlausnarefni og þá kosti sem eru í boði til að bregðast við efni og ábendingum skýrslunnar.

Vísindin leiða æ betur í ljós að náttúran, sérstaklega skógar, stuðlar að líkamlegri og andlegri heilsu okkar og getur bætt heilsu fólks umtalsvert. Á fundinum á þriðjudag verður tíundað það vegarnesti sem áðurnefnd úttekt gefur okkur fyrir framtíðina. Úttektin er byggð á yfirlitsrannsókn þar sem teknar voru saman vísindalegar niðurstöður um tengsl skóga og heilsu fólks um allan heim. Fundurinn fer fram á ensku og að lokinni kynningu skýrslunnar verður hún gerð aðgengileg til niðurhals á pdf-formi.

 

Hér til hægri er myndband sem skýrir nánar hlutverk GFEP og tilganginn með skýrslunni umræddu.

Nánar um skýrsluna

Nánar um fundinn

Dagskrá

Frétt: Pétur Halldórsson