Sjúkdómurinn hefur ekki fundist hérlendis

Váleg tíðindi berast nú af lerkiskógum í Wales. Frá og með 2. nóvember verður útsýnisveginum Cwmcarn Forest Drive í Wales lokað vegna illvígs sjúkdóms sem þar herjar á lerki. Um 78% trjánna með fram veginum hafa sýkst af hættulegum þörungasveppi, Phytophthora ramorum, (larch disease). Fella verður trén.

Herferð er nú farin um allt landið til að draga eins og mögulegt er úr hættunni á að sjúkdómurinn dreifist frekar út. Meira en tvær milljónir lerkitrjáa í þjóðskógum Wales hafa þegar verið felldar.

Cwmcarn-skógurinn er vinsæll til útivistar og náttúruskoðunar. Þar er ýmiss konar aðstaða og þar á meðal áðurnefndur útsýnisvegur sem lokað verður á sunnudaginn kemur. Að öðru leyti verður skógurinn áfram opinn. Um 78% trjáa með fram útsýnisveginum umrædda eru lerkitré og þau verða fjarlægð á næstu tveimur árum eða svo. Felld verða um 160.000 tré og af þeim koma um 50.000 rúmmetrar af viði. Til þess að hægt sé að vinna þetta verk þarf að nota veginn því ekki er óhætt að leyfa umferð um hann á meðan. Ekki hefur verið ákveðið hvort þessi útsýnisvegur verður opnaður aftur í sömu mynd og áður. Skógurinn sem vegurinn liggur um á eftir að taka miklum breytingum. Í stað lerkisins verða ræktaðar innlendar lauftrjátegundir eins og reynir, eik og beyki en einnig barrviðartré, furu-, greni-, og þintegundir.

Phytophthora ramorum er sérlega hættulegur sjúkdómur í plöntuuppeldi og getur lagst á fjölmargar tegundir. Hann er þó ekki aðeins hættulegur í gróðrarstöðvum því hann getur einnig drepið stór tré eins og sést af dæminu frá Wales. Hann hefur ekki fundist hér á landi en hefur komið upp í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku, þótt ekki hafi hann náð fótfestu þar. Á vef stofnunar um náttúruauðlindir í Wales, Natural Resources Wales, er sagt að ekki sé hægt að stöðva útbreiðslu sjúkdómsins. Mögulegt sé hins vegar að hægja á útbreiðslunni og um þetta er fjallað í meðfylgjandi myndbandi.

Myndband um lokun vegarins.

Heimildir:

Texti: Pétur Halldórsson