Nemendur Þjórsárskóla alast upp við að nýta skóginn í námi sínu og afurðir hans til ýmiss konar sköp…
Nemendur Þjórsárskóla alast upp við að nýta skóginn í námi sínu og afurðir hans til ýmiss konar sköpunar.

Foreldrar virkjaðir með í skógarnytjarnar

Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins, tekur fyrir hönd stofnunarinnar þátt í formlegu þróunarsamstarfi við Þjórsárskóla ásamt Jóhannesi Sigurðssyni, aðstoðarskógarverði á Suðurlandi sem hefur aðsetur í Þjórsárdal. Í haust var gengið frá endurnýjun samstarfssamnings um að þróa skógartengt skólastarf og tengja samfélagið við þjóðskóginn í Þjórsárdal. Markmiðið er að finna fjölbreytt verkefni í skólastarfi og fá foreldrana og aðra íbúa í sveitinni til að líta á skóginn sem hluta af náttúru, menningu og námsumhverfi í heimabyggð sinni.

Fyrr í maímánuði fór Ólafur og rifjaði upp handtökin við tálgun og ferskar viðarnytjar með nemendum og starfsfólki Þjórsárskóla. Hann kynnti áhugaverð og hagnýt verkefni sem unnið verður að áfram á hausti komanda, bæði í skólanum og með áhugasömum foreldrum.

Þjórsárskóli hefur um nokkurt árabil tekið þátt í verkefninu Lesið í skóginn og verið þar virkur þátttakandi. Nemendur hafa fengið að kynnast þjóðskóginum í Þjórsárdal af eigin raun og tekið þar til hendinni með ýmsum hætti. Jafnvel hafa verið settar upp tjaldbúðir í skóginum og krakkarnir gist þar. Unnið hefur verið með efnivið úr skóginum, tálgaðir nytjahlutir, girðing fléttuð úr víðigreinum, gömul skaftlaus áhöld hafa fengið nýtt skaft úr viði skógarins og fleira og fleira. Allt miðar þetta að því að þróa skógarfræðslu með útinámi og tengja samfélagið umhverfi sínu. Í útikennslunni er auðvelt að tengja saman ólíkar námsgreinar og nota fjölbreyttar kennsluaðferðir sem gera ólíkum nemendum auðveldara með að tileinka sér námið.

Samningur Skógræktarinnar og Þjórsárskóla var endurnýjaður til þriggja ára í nóvember síðastliðnum og gildir hann því til loka ársins 2017. Samkvæmt samningnum er meiningin að þróa starfið áfram svo úr verði svokölluð skógarnámskrá sem tengist öllum námsgreinum. Með þessu má meðal annars efla einstaklingsmiðað nám auk þess sem fjölbreytni í kennsluháttum eykst. Með nýja samningnum er sömuleiðis stefnt að því að virkja foreldra barnanna og aðra aðstandendur meira inn í starfið, meðal annars með fjölbreyttum skógarnytjanámskeiðum þar sem kennd verður tálgutækni, ferskviðarnytjar og skógarumhirða. Í framhaldinu er svo meiningin að því starfi sem þróað verður í Þjórsárskóla megi miðla til annarra skóla í landinu með tengingum við þá skóga og það skógarfólk sem er að finna á hverjum stað. Með samstarfinu er vonast til að til verði ný skógartengd verkefni sem bæta má inn í verkefnabanka Lesið í skóginn á vef Skógræktarinnnar.

Texti: Pétur Halldórsson og Ólafur Oddsson
Myndir: Ólafur Oddsson