Þátttakendur í aðalfundi Skógræktarfélags Íslands syngja við raust í Hálsaskógi, skógræktarsvæði Skó…
Þátttakendur í aðalfundi Skógræktarfélags Íslands syngja við raust í Hálsaskógi, skógræktarsvæði Skógræktarfélags Djúpavogs.

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands ályktar að gróðursettar verði 8 milljónir trjáplantna á ári

Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands lauk á Djúpavogi laust fyrir hádegi í dag. Ályktað var um eflingu skógræktar með því mark­miði að á næstu 5 árum verði gróðursettar átta milljónir trjáplantna árlega.

Um 120 félagar úr aðildarfélögum Skóg­ræktar­félags Íslands víðs vegar um landið tóku þátt í fundinum sem fram fór í ein­muna blíðu, sólskini og hlýju veðri. Magnús Gunnarsson er áfram formaður félagsins og aðrir aðalmenn í stjórn eru Sigrún Stef­áns­dóttir, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Guðbrandur Brynjólfsson, Þuríður Yngvadóttir og Páll Ingþór Kristinsson. Varamenn voru kjörin þau Kristinn Þorsteinsson, Laufey Hannesdóttir og Sigríður Heið­munds­dótt­ir.


Undir lok fundarins voru bornar upp til sam­þykktar tillögur að ályktunum sem lagðar höfðu verið fram og ræddar. Ályktað var að stjórn SÍ hvetti sveitarstjórnir á höfuð­borgar­svæðinu til að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi að gerð Græna stígsins í græna trefli skógræktarsvæðanna ofan byggðar höfuðborgarsvæðisins. Stjórnin var einnig hvött til þess í ályktun að fylgja fast eftir ályktun frá síðasta aðalfundi um nýtingu þjóðlendna til landgræðslu og skóg­ræktar á vegum skógræktarfélaganna. Jafn­framt var ályktað um nýtingu íslensks trjáviðar við uppbyggingu á ferða­manna­stöð­um.

Í ályktun um eflingu skógræktar sem samþykkt var á fundinum eru stjórnvöld hvött til að auka skógrækt á ný í landinu. Gróðursetning hafi dregist saman úr sex milljónum skógarplantna á ári 2007 niður í um þrjár milljónir. Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands vill að markið verði sett á átta milljónir gróðursettra trjá­plantna á ári næstu fimm árin. Ályktunin hljóðar svo:

Aðalfundur Skógræktarfélags íslands, haldinn á Djúpavogi 2.-4. september 2016, hvetur stjórnvöld til að stór­auka framlög til skógræktar. Vísað er til þingsályktunar sem samþykkt var samhljóða á Alþingi árið 2014 sem fjallaði m.a. um eflingu skógræktar sem atvinnuvegar. Gróðursetning skógarplantna hefur dregist saman ár frá ári allt frá árinu 2007, þegar 6 milljónir skógarplantna voru gróðursettar, í 3 milljónir skógarplantna á ári. Með­fylgjandi mynd Einars Gunnarssonar úr Skógræktarritinu 1. tbl. 2016 sýnir stöðuna. Þessi þróun er mikið áhyggju­efni og hefur ekki bara haft áhrif á gróðursetningu heldur einnig á skógarplöntuframleiðslu sem atvinnu­veg, sem er að verða svo veikburða. Hætt er við að forsendur fyrir eðlilegu samkeppnisumhvefi á því sviði séu að bresta. Markmiðið er að á næstu árum verði stefnt að því að gróðursetja 8 milljónir skógarplantna á ári hverju.

Skógræktarfélagi Suður-Þingeyinga var á fundinum formlega falið að halda aðalfundinn að ári. Fundurinn fer fram á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði í 25.-27. ágúst 2017.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson