Jón Heiðar Rúnarsson skógverktaki setur eldsneyti á sögina. Verkefnin eru næg við grisjun í skógunum…
Jón Heiðar Rúnarsson skógverktaki setur eldsneyti á sögina. Verkefnin eru næg við grisjun í skógunum og tryggja þarf fjármagn áfram, segir hann. Einnig þarf að huga að lengri námskeiðum fyrir skógarhöggsfólk með meiri þjálfun svo fólk sé fljótara að ná upp afköstum. Ljósmynd: Norðanheiðar/Johan Holst

Aukið fé til grisjunar skóga og aukin gróðursetning hefur skapað störf fyrir fólk sem varð verkefna­laust í veirufárinu. Verktaki sem áður vann við leiðsögn ferðamanna hefur nú nóg að gera við gróðursetningu og grisjun með tvo til þrjá með sér.

Skogur.is hringdi í Jón Heiðar Rúnarsson þar sem hann var við störf ásamt félögum sínum við gróður­setningu á skógræktarsvæðum Landsvirkjunar við Blöndu. Hann lét vel af vinnunni það sem af er sumri, jafnvel þótt rigning væri að angra þá einmitt þá stundina. „Mikil rigning er ekki skemmtileg í þessu, hvorki í gróðursetningu né grisjun,“ segir hann. „En þetta er samt frábært.“

Jón Heiðar rak skógverktakafyrirtæki fyrir efnahagshrunið 2008. Hann hafði allt að átta manns í vinnu við gróðursetningu á sumrin og tvo í grisjun á ýmsum árstímum. Verkefnin voru næg og stétt skógverktaka var að byggjast upp. Eftir hrunið datt botninn úr starfseminni. Þá hafi einnig spilað inn í, segir hann, að verk­takar með mismikla reynslu af skógarvinnu hafi tekið að bjóða lágt í skógarverk. Það hafi bitnað á sér­hæfð­um skógverktökum.

Samdrætti í skógrækt fylgdi uppgangur ferðaþjónustunnar og þangað fór Jón Heiðar eins og margir aðrir. Hann hefur snert á rekstri í ferðaþjónustu og starfað sem leiðsögumaður en þegar veirufaraldurinn reið yfir varð hann verkefnalaus. Þá fór hann að líta til skógarins á ný enda fréttist af auknu fé í aðgerðapakka stjórnvalda til gróðursetningar skógarplantna og grisjunar í bændaskógum. Því má segja að tækifærin í kófinu hafi verið að finna í skóginum.

Nóg að gera

Jón Heiðar í kaffipásu. Ljósmynd: Johan HolstJón Heiðar segir að verkefnin hafi verið næg síðustu vikur, bæði við grisjun fyrir tilstilli Skógræktarinnar á skógarjörðum og gróðursetningu. Hann hefur ásamt félögum sínum unnið að verkefnum allt frá Fnjóskadal suður í Borgarfjörð.

Jón Heiðar segir að hægt sé að hafa þokkalegt upp úr gróðursetningunni fyrir vant fólk. Fólk þurfi þó að lágmarki að geta gróðursett 1.500 plöntur á dag til að launin séu þokkaleg, og tekur leiðsögumannsstarfið til samanburðar. Viljugir nýliðar geti fljótlega náð upp slíkum hraða þótt byrjunarkaupið sé vissulega heldur lágt því yfirleitt sé unnið í akkorði. Hann tekur sem dæmi 15 ára ungling sem er í gróðursetningar­flokknum hans. Sá sé alsæll með kjörin enda miklu betri en í unglingavinnunni.

Þörf á námskeiðum með meiri þjálfun

Öðru máli gegnir um keðjusagarvinnuna, segir Jón Heiðar. „Þetta er erfið vinna, skítug og líka hættuleg ef fólk kann ekki til verka og þekkir ekki til öryggis­atriða. Fólk verður líka að sætta sig við að vera langdvölum að heiman og lágmarksaldur til að vinna með keðjusög er 18 ár,“ segir hann. Sömuleiðis sé ekki hlaupið að því að þjálfa menn upp við grisjun þegar mest er borgað í akkorði. Til að fjölga þeim sem geta unnið þessi störf telur Jón Heiðar að huga þurfi betur að tækifærum til náms og þjálfunar. Nokkurra daga keðjusagarnámskeið séu góð svo langt sem þau nái. Þau nægi hins vegar ekki til að fólk öðlist næga reynslu í mismunandi skóglendi og nægum vinnuhraða til að vera klár í skógarvinnuna. Þörf sé á ítarlegri námskeiðum með lengri þjálfunartíma.

Aðspurður hvort hann telji að tækifæri fyrir skógverktaka séu nú tekin að þróast í svipaða átt og var fyrir hrun segir Jón Heiðar of snemmt að segja til um það. Hann segist fylgjast með þróuninni og vill til dæmis sjá hvort áfram verða lagðir fjármunir í grisjun í bændaskógum. Jón Heiðar er rekstrarfræðingur að mennt og hefur unnið við rekstrarráðgjöf. Hann reiknar því alla hluti út og segist vita hvað þurfi að koma til svo að skógarhöggsmönnum fjölgi. Næg verkefni og þokkaleg kjör eru þar stærstu breyturnar.

Bjartsýnn ef áfram fæst fé til grisjunar

Þrátt fyrir þetta segist Jón Heiðar bjartsýnn. Aukaframlagið frá ríkinu til grisjunar hafi haft heilmikið að segja í sumar, ekki bara fyrir hann og menn hans heldur séu fleiri í þessu í sumar. Aukin gróðursetning sé góð til að auka atvinnutækifærin hratt en lengri tíma taki að fjölga störfum við grisjun eins og rætt hefur verið hér að framan. Hins vegar vanti ekki verkefnin enda séu skógar komnir á grisjunarstig víða. Til að skógarnir geti orðið eins verðmætir og lagt var upp með vanti hins þurfi að leggja fjármagn í grisjunina.

En skyldu koma verðmæti út úr skógunum við grisjunina í sumar? Jón Heiðar segir að víða sé þetta fyrsta grisjun og of kostnaðarsamt að draga efnið út til að það borgi sig. Á eldri svæðum sé hins vegar tekið út talsvert efni sem verði að eldiviði og kurli til ýmissa nota, jafnvel nokkuð af flettanlegu efni. Sumir bændur séu jafnvel að koma sér upp aðstöðu til vinnslu á timbrinu heima, segir Jón Heiðar Rúnarsson skógverktaki að lokum í rigningunni við Blöndu.

Texti: Pétur Halldórsson