Fjallað um leiðir til að auka kolefnisbindingu

Ráðstefna um leiðir til að auka kolefnis­bindingu var haldin í Bændahöllinni þriðjudaginn 5. desember á alþjóðlegum degi jarðvegs. Upptökur að erindunum eru nú aðgengilegar á vef Bændasamtakanna.

Á ráðstefnunni hélt írski sérfræðingurinn Eugene Hendrick erindi um aðgerðir sem Írar hafa ráðist í til þess að binda kolefni með breyttri landnotkun og aukinni skóg­rækt. Eugene hefur verið einn af aðal­samninga­mönnum Íra í samskiptum við ESB varðandi samninga um kolefnis­bindingu með skóg­rækt.

Auður Magnúsdóttir, deildarforseti auðlinda- og umhverfisdeildar Landbúnaðarháskóla Íslands, fjallaði um losun kol­efnis frá mismunandi gerðum þurrlendis. Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjár­bænda, sagði frá nýrri skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá sauðfjárbúum á Íslandi og aðgerðum sem sauð­fjár­bændur hyggjast fara í til þess að draga úr losun. Þá sögðu þeir Jóhann Þórsson, sérfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins, og Arnór Snorrason, sérfræðingur á Mógilsá, frá möguleikum Íslands með kolefnisbindingu með landgræðslu og skógrækt.

Áður en ráðstefnunni lauk með fyrirspurnum og umræðum ávarpaði nýr umhverfisráðherra ráðstefnuna, Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Nú má hlýða á öll erindin ásamt ávarpi ráðherra og umræðum á sérstakri síðu á vef Bænda­samtakanna, bondi.is.

Að ráðstefnunni stóðu Landgræðsla ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands, Skógræktin og Bændasamtök Íslands. Mark­mið hennar var að draga fram leiðir til bindingar kolefnis hér á landi stuðla að því að Íslendingar geti uppfyllt skyldur sem m.a. felast í Parísarsamkomulaginu.