Birkikemba hefur verið að breiðast út um landið undanfarin ár. Lirfan fer inn í laufblaðið sem skorp…
Birkikemba hefur verið að breiðast út um landið undanfarin ár. Lirfan fer inn í laufblaðið sem skorpnar smám saman upp og geta trén orðið brún að sjá þegar mikið er um kvikindið. Mynd: Pétur Halldórsson.

Birkikemba herjar á birki víða um land

Eins og fram hefur komið hér á skogur.is virðist nú stefna í gott vaxtarsumar hjá trjám á Íslandi. Margt getur þó sett strik í reikninginn hjá trjánum, til dæmis ýmsir skaðvaldar sem á þau herja. Brúnleitt birki sést nú víða um land og þar á birkikemba líklega stærstan hlut að máli. Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, óskar eftir upplýsingum um skaðvalda á trjám hvaðanæva af landinu og aðrar upplýsingar um ástand trjáa og skóga.

Edda Sigurdís Oddsdóttir, vistfræðingur á Mógilsá, segir að einkum sé vert að fá upplýsingar um nýja skaðvalda á hverjum stað. Sérstaklega biður hún fólk að hafa augun opin fyrir því hvort asparglytta og birkikemba skýtur upp kollinum á svæðum þar sem þessar tegundir hafa ekki sést áður. Einnig megi fólk gjarnan láta vita ef vart veðrur við ertuyglu á lúpínu.

Þegar hafa borist fregnir af því víða að af landinu að birkikemba herji á birkitré. Sums staðar séu birkitré brúnleit að sjá. Birki er til dæmis brúnt á Mógilsá og víða um höfuðborgarsvæðið, á Sauðárkróki og Akureyri, Hafnarskógur er brúnleitur að hluta og fleiri dæmi mætti nefna. Birkikemban drepur ekki trén og yfirleitt ná þau sér þegar lirfan er flogin upp úr miðju sumri.

Að sögn Eddu er lítil reynsla komin af birkikembunni hérlendis og því sé eftir að sjá hvort birkið myndar mótstöðu við henni með tímanum. Hætt sé við að það taki talsverðan tíma. Talsvert hafi sést af fiðrildum í Reykjavík í vor en samt borið minna á skemmdum vegna birkikembu en oft áður sem gæti bent til mótstöðu en það er þó ekki vísindalega staðfest. Eddu sýnist að það sé áramunur á skemmdum af völdum birkikembu og væntanlega skipti miklu máli hversu mikið af fiðrildum er hverju sinni og hversu hlýtt er í veðri að vori. Frekari athugana er þörf og í lengri tíma til að gefa megi vísindalegri svör við þessu en Edda segir að vegna hlýindanna í vor og framan af sumri megi vel búast við því að ýmsir skaðvaldar nái sér vel á strik í sumar.


Upplýsingar óskast

Rétt er að hvetja fólk til þess að senda vandaðar upplýsingar um þá skaðvalda sem eru á ferðinni hverju sinni. Til að auðvelda sér þá vinnu getur fólk hlaðið niður eyðublaðinu í Excel-skránni hér fyrir neðan. Í skjalinu eru þrjú blöð, í fyrsta lagi skaðvaldatafla þar sem skrá má upp­lýs­ing­ar um skaðvalda og skemmdir á trjám, í öðru lagi útskýringar og á þriðja blaðinu er listi yfir helstu skaðvalda skipt eftir trjátegundum. Með þessu er reynt að samræma þær upplýsingar sem berast frá fólki um skaðvalda en um leið að gera fólki auðveldara að skrá upplýsingarnar. Allar frekari upplýsingar eða hugleiðingar er líka velkomið að láta fylgja með þótt þær rúmist ekki á töfluforminu. Einnig þiggur Edda með þökkum allar ábendingar um það sem betur megi fara í töflunni.

Ekki er verra ef fólk getur látið ljósmyndir fylgja upplýsingunum. Allar myndir sem berast eru settar inn í gagnagrunn þar sem ljósmyndarans er getið. Gengið er út frá því að þessar myndir megi nota í fyrirlestrum sé höfundar getið en óskað verði leyfis til að birta þær opinberlega á vef eða prenti. Fólk er beðið að geta þess sérstaklega ef það vill ekki að myndir verði notaðar með þessum hætti.

Að auki látum við hér fylgja með í bæklingi stutta samantekt með myndum af öllum helstu skordýrum sem valda skaða á trjám og runnum. Viðbúið er að í þessu leynist villur og ýmislegt sem betur mætti fara enda er þetta bráðabirgðaútgáfa. Vonandi hjálpar þetta fólki þó eitthvað. Samantektin er að miklu leyti byggð á pödduvef Náttúrufræðistofnunar sem gott er að skoða til að glöggva sig á skaðvöldum.

Texti: Pétur Halldórsson